Ekki hægt að útiloka sýkingu

Töluvert hefur dregið úr tilkynningum til Matvælastofnunar um dauða villtra fugla.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni sem túlkar það sem vísbendingu um að dregið hafi úr fuglainflúensusmiti.

Enn greinist þó stöku fugl með skæða fuglainflúensu og því ljóst að faraldurinn er ekki úr sögunni.

Svo virðist sem smithætta sé ekki mikil en ekki er hægt að útiloka að dýr sýkist ef þau eru í náinni snertingu við veika eða dauða fugla. Gæludýraeigendur þurfa því að meta út frá eigin aðstæðum hvort þeir leyfi dýrum sínum að vera frjáls úti.

Matvælastofnun minnir á að enn séu í gildi fyrirmæli ráðherra um varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fuglainflúensa berist í alifugla og aðra fugla í haldi.

333 dauðir fuglar

Matvælastofnun telur ekki rétt að draga úr þessum ráðstöfunum því nú eru farfuglarnir að flykkjast til landsins og þeir koma frá slóðum þar sem töluvert hefur verið um sýkingar í fuglum og nokkuð mikil hætta á að nýjar veirur berist með þeim.

Fuglaeigendur þurfi því enn að gæta ítrustu sóttvarna og fylgjast vel með fuglunum sínum.

11 tegundir villtra fugla hafa greinst með afbrigði H5N5 síðan í haust og alls hefur verið tilkynnt um 333 dauða og 78 veika fugla.

14 sýni hafa á sínum tíma verið tekin úr villtum spendýrum og hefur veiran greinst í þremur köttum, einum ref og einum mink.

Smella á ábendingar og fyrirspurnir

Matvælastofnun hvetur enn fólk til að tilkynna stofnuninni um dauða fugla og dauð villt spendýr sem það finnur, ef ástæða dauða er ekki augljós. Það er gert með því að smella á „ábendingar og fyrirspurnir“ á forsíðu mast.is.

„Mikilvægt er að lýsa staðsetningu vel, helst með hnitum, og láta mynd fylgja með.

Tilkynningarnar eru þýðingarmikill liður í vöktun á stöðunni. Allar ábendingar eru skráðar og stofnunin tekur svo ákvörðun um hvort ástæða sé til að taka sýni eða ekki.

Meðal þess sem haft er til hliðsjónar við þá ákvörðun er hvar dýrið er staðsett og um hvaða tegund er að ræða,“ segir í tilkynningunni.

Matvælastofnun minnir á að sveitarfélögum sé skylt lögum samkvæmt að sjá til þess að villtum dýrum, sem ætla má að séu sjúk, særð, í sjálfheldu eða bjargarlaus að öðru leyti, sé komið til bjargar.

Því þurfi að tilkynna um veik eða slösuð villt dýr til viðkomandi sveitarfélags eða lögreglu utan opnunartíma þeirra, auk Matvælastofnunar, svo hægt sé að koma þeim til hjálpar eða lina þjáningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert