Fellir mál Ásthildar Lóu ríkisstjórnina?

Ekkert kemst á dagskrá þennan fréttadaginn annað en afsögn barna- og menntamálaráðherra. En hver verður eftirleikur málsins? Er ríkisstjórnin í hættu? Hefur orðspor Íslands skaðast á erlendum vettvangi?

Svara við þessum spurningum verður leitað á vettvangi Spursmála þennan föstudaginn. Til þess að ræða pólitíkina í málinu mæta þau til leiks, Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins.

Þátturinn var sýndur hér á mbl.is fyrr í dag en upptöku af honum má nálgast í spilaranum hér að ofan, á Spotify og YouTube, og er hún öllum aðgengileg. 

Lögmenn rýna í stöðuna

Að lokinni þeirri umræðu eru þeir væntanlegir á vettvang lögmennirnir Sigurður G. Guðjónsson og Árni Helgason, sem einnig er varaþingmaður.

Þeir ætla að ræða annað stórt mál sem skekið hefur íslenskt samfélag síðustu vikur og varðar einnig Ásthildi Lóu Þórsdóttur, fráfarandi ráðherra. Í ljós hefur komið að Arion banki afhenti henni og eiginmanni hennar fasteign í Garðabæ árið 2019 langt undir markaðsvirði. Hvaða áhrif hafa þær upplýsingar, meðal annars á afstöðu skattayfirvalda?

Á Framsókn sér viðreisnar von?

Í lok þáttar mun Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, mæta á vettvang en þann 13. mars skrifaði hann grein þar sem hann kallar eftir endurreisn Framsóknarflokksins. Miðstjórn hans mun funda á Akureyri um helgina og í viðtalinu mun Guðni upplýsa hvað hann telji að þurfi að gera til þess að þessi elsti stjórnmálaflokkur nái vopnum sínum að nýju.

Fylgist með sneisafullum og spennandi umræðuþætti hér á mbl.is alla föstudaga klukkan 14.

Diljá Mist Einarsdóttir, Snorri Másson, Guðni Ágústsson, Árni Helgason og …
Diljá Mist Einarsdóttir, Snorri Másson, Guðni Ágústsson, Árni Helgason og Sigurður G. Guðjónsson eru gestir Stefáns Einars Stefánssonar í Spursmálum að þessu sinni. Samsett mynd/mbl.is/María Matthíasdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert