Frábiður sér tal um að hann sé rasisti

Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins og gestur í Dagmálum mbl.is, frábiður sér allt tal um að það sé rasískur undirtónn í málflutningi hans gagnvart innflytjendum. 

Hann segist hafa verið alinn upp í vinstrisinnuðu umhverfi og kannast því við það hvaðan orðræðan sem bendlar hann við rasisma komi. Hins vegar telur hann slíka merkimiða fylgifisk umræðu um íslenska tungu sem truflar hann ekki.

Tekur illar ásakanir ekki nærri sér 

Snorri kom í Dagmál mbl.is ásamt Lilju Alfreðsdóttur, varaformanni Framsóknarflokksins, m.a. til að ræða stöðu íslenskunnar.   

„Ekkert af því sem ég er að segja er út frá andúð eða óánægju með nokkurn mann. Mér þykir mjög vænt um fólk úr ólíkum áttum. Þetta tengist því ekkert. Þetta tengist stefnumótun hjá hinu opinbera sem ég lít svo á að sé á ábyrgð minni sem stjórnmálamanns að benda á. Það er að mörgu leyti fórnarkostnaður að vera sakaður um allt illt þó ég taki það mjög lítið nærri mér,“ segir Snorri.

Tiltölulega augljós þróun 

Í hans huga sé hann að benda á augljósa þróun sem snúi að ógnum sem steðji að íslenskri tungu.

„Ég er að benda á tiltölulega augljósa þróun varðandi stöðu íslenskrar tungu og mér finnst mér skylt að benda á hana. Ég er ekki að ýkja heldur benda á fyrirliggjandi gögn og setja þau í eitthvað samhengi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert