Getur aukið hættu á ADHD og einhverfu

Almennt er barnshafandi konum ráðlagt að neyta sama matar og …
Almennt er barnshafandi konum ráðlagt að neyta sama matar og öðru fólki. Rannsóknin veki hins vegar spurningar um hvort þeim ráðleggingum sé nægilega fylgt eftir á meðgöngu. Ljósmynd/Colourbox

Ný rannsókn alþjóðlegs hóps vísindafólks, þar á meðal við Háskóla Íslands, sýnir að mataræði sem einkennist af neyslu mikillar fitu, sykurs og unnins matar á meðgöngu getur aukið hættu á taugaþroskaröskunum eins og ADHD og einhverfu hjá börnum þeirra.

Greint var frá niðurstöðum rannsóknarinnar í vísindatímaritinu Nature Metabolism á dögunum en rannsóknin skapar tækifæri til að bæta og fylgja betur eftir ráðleggingum um mataræði til barnshafandi kvenna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Rannsóknin byggðist á greiningu gagna úr fjórum dönskum og bandarískum gagnabönkum sem hafa að geyma m.a. upplýsingar um neyslumynstur yfir 60 þúsund kvenna á meðgöngu og ADHD-greiningar í hópi barna þeirra.

Skýr tengsl fundust

Jafnframt rannsakaði hópurinn blóðsýni úr bæði mæðrum og börnum og tók tillit til fjölmargra þátta sem hafa áhrif á taugaþroskaraskanir, eins og erfða.

Í rannsókninni fundust skýr tengsl á milli vestræns mataræðis hjá mæðrunum og ADHD og einhverfu hjá börnum þeirra, en vestrænt mataræði einkennist af mikilli neyslu á feitum, sykruðum og unnum mat en lítilli fisk-, grænmetis- og ávaxtaneyslu.

Því frekar sem barnshafandi konur fylgdu hinu vestræna mataræði því meiri hætta var á því að barnið sem þær báru undir belti yrði greint með ADHD eða einhverfu.

Rannsóknin bendir á að jafnvel tiltölulega lítil breyting á mataræði móður í átt að því vestræna jók líkur á að barn greindist með ADHD um 66% og að það greindist með einhverfu um 122%.

Að sama skapi geti sömu breytingar á mataræði í átt frá því vestræna mögulega dregið úr hættunni á taugaþroskaröskunum hjá börnum.

Vísindamennirnir undirstrika að rannsóknin sýni fram á sterk tengsl milli mataræðis og taugaþroskaraskana en sanni ekki að vestrænt mataræði á meðgöngu valdi ADHD og einhverfu hjá börnum.

Niðurstöður geta nýst

Niðurstöðurnar styrkja mikilvægi næringarráðlegginga til barnshafandi kvenna að mati rannsakenda. Almennt er barnshafandi konum ráðlagt að neyta sama matar og öðru fólki þar sem áhersla er á grænmeti, heilkornafæðu og fisk. Rannsóknin veki hins vegar spurningar um hvort þeim ráðleggingum sé nægilega fylgt eftir á meðgöngu.

Rannsóknin var unnin undir forystu vísindafólks við Kaupmannahafnarháskóla en meðal þátttakenda í henni var Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ.

Þórhallur er einn þeirra sem voru í forsvari fyrir söfnun gagna um mataræði sem rannsóknin byggist á. Haft er eftir Þórhalli að hugmyndin að því að skoða fæðumynstur á meðgöngu hafi kviknað í samstarfi við erlenda kollega hans fyrir mörgum árum.

„Með því að nota mörg gagnasöfn var hægt að sýna fram á að tengslin við vestrænt mataræði voru ekki bara bundin við eitt gagnsett heldur voru þetta tengsl sem sáust endurtekið.

Þetta ásamt þeim „metabolomics-mælingum“ sem nýttar voru í rannsókninni styrkir þær ályktanir sem dregnar eru í greininni,“ er haft eftir Þórhalli.

Vísindagreinina sem ber yfirskriftina, „A Western dietary pattern during pregnancy is associated with neurodevelopmental disorders in childhood and adolescence“, má nálgast á vef Nature Metabolism.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert