Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra kveðst ekki finna til ábyrgðar þrátt fyrir að aðstoðarmaður hennar hafi látið Ásthildi Lóu Þórsdóttur í té nafn konunnar sem sendi inn erindi varðandi Ásthildi.
Konan sendi skeyti til forsætisráðuneytisins sem varðaði Ásthildi og bað um fund með Kristrúnu.
Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu tók konan fram að Ásthildur mætti sitja fundinn og aðstoðarmaður Kristrúnar lét Ásthildi fá nafn konunnar til að forvitnast um hana.
Kristrún hafnaði á endanum fundarbeiðni konunnar.
Fimm dögum eftir að Ásthildur fékk nafn konunnar frá aðstoðarmanni Kristrúnar hóf Ásthildur að hringja ítrekað í konuna, heimsótti hana, og opinberaði loks nafn hennar í fjölmiðlum og tengsl.
Finnið þið til ábyrgðar?
„Það fóru ekki á milli neinar viðkvæmar trúnaðarupplýsingar,“ sagði Kristrún.
Þannig að þið finnið ekki til ábyrgðar?
„Það er mjög mikilvægt að taka fram að það fóru ekki á milli ráðherra eða aðstoðarmanna mikilvægar upplýsingar. Það er send inn beiðni um fund þar sem fram kemur ...“ sagði Kristrún en blaðamaður benti henni þá á að þær upplýsingar hefðu þegar komið fram.
Var Kristrún því aftur spurð hvort að hún fyndi til ábyrgðar vegna þess áreitis sem konan varð fyrir af hálfu Ásthildar.
„Það er ekki á mína ábyrgð að mennta- og barnamálaráðherra ákveði að fara og ræða með þessum hætti við viðkomandi aðila, enda er þetta ekki með minni vitneskju.“
Ásthildur Lóa sagði af sér embætti barna- og menntamálaráðherra í gær.