Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að ákvörðun Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fráfarandi mennta- og barnamálaráðherra, að segja af sér hafi verið hetjuleg og að persónuleg mál hennar eigi ekki að skyggja á hana.
„Tekur hetjulega ákvörðun,“ sagði hún á blaðamannafundi oddvita ríkisstjórnarinnar núna rétt í þessu um afsögn Ásthildar.
Inga sagðist varla vera búin að átta sig á þessu öllu, en að að hún væri harmi slegin. Sagði hún Ásthildi Lóu eiga hug sinn allan og að málið væri „mannlegur harmleikur.“
„Við fengum að upplifa hvernig við fáum að sjá einn einstakling mulinn mélinu smærra,“ sagði hún um umfjöllun um málið og að Ásthildur hafi ákveðið að segja af sér.
Ítrekaði Inga að Ásthildur væri sigurvegari síðustu kosninga í Suðurkjördæmi og að það væri hennar að meta hvort hún ætlaði að halda áfram sem þingmaður, en að hún færi ekki fram á að hún segði af sér. Sagði Inga að sér þætti Ásthildur sannarlega eiga erindi á þing.
Inga sagði jafnframt að hún myndi ræða við sitt fólk núna og að ákvörðun um hver yrði næsti ráðherra myndi líklega liggja fyrir síðar í dag eða í seinasta lagi um helgina.