KÍ-samningar stór biti fyrir sveitarfélögin

Frá landsþingi sambandsins á Hilton Nordica í gær.
Frá landsþingi sambandsins á Hilton Nordica í gær. mbl.is/Karítas

Kjarasamningarnir við kennara eru stór biti fyrir sveitarfélagastigið. Þetta kom fram í máli Sögu Guðmundsdóttur, aðalhagfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fjallaði um áhrif kjarasamninga og nýgerðs samkomulags ríkis og sveitarfélaga um breytta ábyrgðarskiptingu á fjárhag sveitarfélaga á þingi sambandsins í gær.

„Í ykkar fjárhagsáætlunum er líklegt að þið hafið gert ráð fyrir að launakostnaður vegna KÍ myndi hækka um sirka fjögur prósent í ár en raunin verður þá nær tólf prósentum. Fyrir launakostnað sveitarfélagastigsins í heild munu laun sennilega aukast um ríflega 8% í staðinn fyrir 6% í ár. Þetta er bil sem þarf að brúa,“ sagði hún.

Þriðjungur launafólks

Í samkomulaginu við KÍ er kveðið á um 8% innborgun vegna vinnu við virðismat kennara. Kom fram í máli Sögu að þessi innborgun er talin kosta í ár rúma sjö milljarða kr. á sveitarfélagastiginu. „Þessir kennarar búa í sveitarfélögum og greiða útsvar af sínum tekjum þannig að það má kannski ætla að nettóáhrifin séu einhvers staðar nær sex milljörðum, en þetta samsvarar um 1,1% af tekjum sveitarfélaga í ár og á næstu árum,“ sagði hún.

Um 25 þúsund stöðugildi eru hjá sveitarfélögum landsins og eru félagsmenn KÍ um þriðjungur launafólks sveitarfélaga. Saga benti á að kennarar væru stór og mikilvægur hópur en eini hópurinn sem væri enn utan starfsmats. Áfram yrði unnið að því að ná utan um virðismat kennarastarfsins og á þeim nótum hefði náðst samkomulagið um 8% innáborgun á launin.

Sveitarfélög sem skilað hafa fjárhagsáætlunum til sambandsins hafa gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri í ár verði í kringum 8% en að mati sambandsins verður það sennilega nær 7%, „sem við vitum að er ekki nóg til þess að standa undir nægilega háu fjárfestingarstigi og standa straum af afborgunum lána,“ sagði Saga.

„Þessir samningar kalla að óbreyttu á forgangsröðun, hvort sem það verður minni þjónusta eða minni fjárfesting eða á aukna lántöku,“ sagði hún.

Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert