Rannsókn lögreglu á meintri fjárkúgun, frelsissviptingu og manndrápi frá því í síðustu viku gengur vel.
Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir enn fullan gang í rannsókninni.
Bæði séu að berast nýjar upplýsingar og eftir því sem farið sé í gegnum gögn komi nýjar upplýsingar í ljós.
Aðspurður segir hann þó hafa dregið úr upplýsingaflæði frá almenningi, svo sem eðlilegt sé.
Jón Gunnar er ekki tilbúinn að tjá sig um það hvort ný sönnunargögn hafi komið í ljós eða hvernig gangi að yfirheyra hina grunuðu.
Sjö sitja í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Varðhaldi hefur verið framlengt yfir þremur og áframhaldandi varðhalds verið krafist yfir tveimur.
Jón Gunnar segir enn verið að meta hvort krafist verði áframhaldandi varðhalds yfir þeim tveimur sem út af standa.
Aðspurður segir hann erfitt að segja hvenær einhvers verði að vænta af málinu en að lögregla muni senda frá sér fréttatilkynningu ef til tíðinda bregði.