Landsréttur hefur staðfest fjögurra ára dóm yfir Snæþóri Helga Bjarnasyni, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart fyrrverandi kærustunni sinni en hann réðst á hana með kaldrifjuðum hætti í Kópavogsdal í ágúst 2023. Einnig var hann sakfelldur fyrir aðra aðra sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart sömu konu í júní 2022.
Snæþór áfrýjaði dómi héraðsdóms, en hann neitaði sök í ofbeldisliðum ákærunnar og sagðist meðal annars ekki hafa verið á staðnum í árásinni í Kópavogsdal. Saksóknari hafði farið fram á að hann yrði sakfelldur fyrir tilraun til manndráps í þeirri árás, en hann hafði ítrekað sparkað í hana og þá sérstaklega í höfuðið, reynt að kyrkja konuna og haldið henni með kyrkingataki þar sem hún var með höfuðið undir vatni í nærliggjandi læk.
Athygli vakti í fyrra þegar Snæþór var látinn laus úr haldi þrátt fyrir að hafa hlotið 4 ára dóm í héraði, þar sem hann hafði áfrýjað dóminum til Landsréttar. Vísað var til þess að til að geta hneppt menn í varðhald til lengri tíma þyrfti að liggja fyrir brot sem meira en 10 ára fangelsi gæti legið við. Það ætti ekki við í þessu máli þar sem hann hefði aðeins verið sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás en ekki tilraun til manndráps.
Vegfarandi á rafmagnshlaupahjóli átti leið um og sá til fólksins og kallaði til þeirra. Við það hætti maðurinn barsmíðum og hljóp á brott. Lýsti vitnið því meðal annars hvernig hann hefði greinilega heyrt manninn segja með ógnandi hætti við konuna „á ég ekki bara að klára þetta.“
Þrátt fyrir að bæði héraðsdómur og Landsréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að maðurinn hafi í báðum málum ráðist að konunni eins og ákært var fyrir, töldu dómstólarnir að ekki væri komin fullnægjandi sönnun fyrir því að árásin hafi verið líkshættuleg. Hafði ákæruvaldið ítrekað kröfu sína fyrir Landsrétti um að árás mannsins í Kópavogsdal yrði flokkuð sem tilraun til manndráps.
Í dóminum kemur fram að vitnið hafi sagt mögulegt að ummæli mannsins sem vísað er í hafi verið sett fram sem spurningu, en að virst hafi að konan ætti ekki neina valkosti. Sagðist maðurinn hafa verið í um 10 metra fjarlægð frá fólkinu og séð árásina.
Í dómunum er vísað til dómafordæmis Hæstaréttar um að það hafi þýðingu við ákvörðun sem þess hvort að vopnum hafi verið beitt, svo og á hvaða líkamshluta ráðist hafi verið á. Árás með skotvopni eða hníf sem beinist til dæmis að höfði, hálsi, brjóstkassa eða kviði leiði meðal annars oftar til þess að ásetningur telst sannaður þegar ákært er fyrir tilraun til manndráps en þegar aðrar verknaðaraðferðir er um að ræða.
„Í þessu máli fólst atlaga ákærða í höggum og spörkum, þar á meðal í höfuð, hann tók brotaþola hálstaki og hélt höfði hennar á kafi í vatni. Af síðastnefndu háttseminni lét hann áður en sérstakur skaði hlaust af,“ segir í dómi Landsréttar. Rétt er að hafa í huga að Snæþór lét af árás sinni vegna þess að vegfarandinn orðið áskynja um árásina og kallað til þeirra.
Verða því ekki dregnar ályktanir af verknaðaraðferðinni um hvort ásetningur hafi verið til manndráps, „að öðru leyti þótt lagt sé til grundvallar að árásin í heild sinni hafi verið ofsafengin og beinst að viðkvæmum líkamshlutum,“ segir í dóminum.
Þá vísar Landsréttur til þess að til að sönnun fyrir ásetningi liggi fyrir þurfi að sanna að „ákærði hafi álitið langlíklegast að afleiðingar af fullfrömdu broti kæmu fram.“ Telur Landsréttur ekkert komið fram um huglæga afstöðu hans og er fallist á með héraðsdómi að „ekki sé unnt að draga þá ályktun af þeim orðum sem ákærði lét falla meðan á atlögu hans stóð og vitnið B bar um að ásetningur ákærða hafi staðið til manndráps.“ Er þar verið að vísa til orðanna „á ég ekki bara að klára þetta“ sem vitnið sagðist hafa heyrt greinilega.
Sem fyrr segir staðfestir Landsréttur því fyrri dóm og hlaut Snæþór fjögurra ára dóm, auk þess að vera gert að greiða konunni 2,5 milljónir og tæplega 8 milljónir í sakarkostnað fyrir báðum dómsstigum.