Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, segja að það fari í taugarnar á þeim að þurfa að tala ensku þegar þau fara að versla.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í samtali Lilju og Snorra við Dagmál mbl.is. Sjá má umræður um málið í meðfylgjandi myndskeiði.
Hins vegar bendir Lilja t.a.m. á að þörf sé á erlendu vinnuafli til að manna heilbrigðiskerfið og því sé málið ekkert sérstaklega einfalt þegar kemur að málefnum um íslenskrar tungu.
„Við eigum að geta fengið alla þjónustu á Íslandi á íslensku. En hins vegar þarf maður líka að vera praktískur í þessu. Hvað ætlum við að gera þegar það vantar starfsfólk í heilbrigðisþjónustu. Ætlum við að láta heilbrigðiskerfið grotna niður. Ég segi nei við því,“ segir Lilja.
Hún telur mikilvægt að horfa til þess að aldrei hafi verið meiri ásókn í íslenskunám í háskólanum og að það eina sem hægt sé að gera sé að bæta aðgengi að náminu.
Snorri segir að nauðsyn þess að grípa til ensku þegar hann fer út í búð, pirri hann djúplega.
„Ég get alveg glímt við það praktíska úrlausnarefni að tala á ensku úti í búð. En þetta pirrar mig djúplega að því leyti að maður sér heildarörlög þjóðmenningar sinnar ljóslifandi fyrir augum í húfi. Því það er raunverulega áminningin sem maður fær í hvert skipti,“ segir Snorri.