Á fimmta tug fyrirtækja hafa tekið áskorun stúdenta við Háskóla Íslands um að stíga fleiri og stærri skref í átt að sjálfbærum rekstri.
Þetta segir í tilkynningu frá Stúdentaráði Háskóla Íslands (SHÍ) sem kynnti nýverið nýja sjálfbærniherferð stúdenta, Stúdentar taka til.
Segir enn fremur að áskorunin byggi á fjölmörgum erlendum rannsóknum sem sýni að arðsemi fyrirtækja aukist til lengri tíma sé sjálfbærni sýnilegur hluti af rekstrinum og var hún send til um 400 íslenskra fyrirtækja.
Þá vill SHÍ að íslensk fyrirtæki verði leiðandi í sjálfbærni og taki virkan þátt í að skapa grænna samfélag til framtíðar. Sjónum sé því beint að 400 fyrirtækjum sem stúdentar leiti til eftir vörum og þjónustu á hverjum degi.
„Í háskólum landsins eru um 20 þúsund nemendur og af þeim hópi stunda um 14 þúsund manns nám við Háskóla Íslands. Sé litið til meðalneyslu á ársgrundvelli má áætla að nemendur HÍ verji um 61 milljarði króna í neyslu og þjónustu yfir árið. Þetta er því afar stór og mikilvægur markhópur sem fyrirtæki og stofnanir hafa hag af því að hlusta á og svara kalli stúdenta um aukið gagnsæi hvað varðar sjálfbærni,“ er haft eftir Arent Orra Jónassyni Claessen, forseta stúdentaráðsins.
Þá munu fyrirtæki sem taka áskoruninni geta unnið með rúmlega 120 aðgerðir sem tengjast sjálfbærni. Aðgerðirnar séu t.a.m. flokkun á plasti, kaup á umhverfisvottuðum blekhylkjum og innleiðing stefnu varðandi einelti og kynferðislegt áreiti.
Munu fyrirtækin geta fylgst með framvindu sinni í rauntíma í sjálfbærnihugbúnaðinum Laufinu og fengið reglulega endurgjöf um stöðu sína í samanburði við önnur fyrirtæki.
Einnig geta þau komist á sérstakan heiðurslista stúdenta sem verður birtur í október og hlotið nafnbótina Fyrirtæki framtíðarinnar.