Nokkrar íbúðir á Austurhöfn hafa verið endurseldar með töluverðum söluhagnaði.
Sala íbúða á Austurhöfn hófst haustið 2020 og seldist fyrsta íbúðin í febrúar 2021. Alls er 71 íbúð á Austurhöfn og eru 70 seldar. Íbúðirnar eru í sex stigagöngum við Bryggjugötu 2-6, Reykjastræti 5 og 7 og Geirsgötu 17.
Fermetraverð seldra íbúða hefur verið mismunandi eftir húsum og eftir hæðum. Það var frá einni og upp í eina og hálfa milljón í rúmlega 60 íbúðum. Fermetraverðið var tæplega milljón í fjórum íbúðum og rúmlega ein og hálf milljón í fjórum íbúðum.
Af þeim 70 íbúðum sem hafa selst hafa 14 verið endurseldar. Hlutfallslegur söluhagnaður í nokkrum tilvikum er töluvert umfram breytingu á vísitölu neysluverðs á tímabilinu, sem þýðir góða raunávöxtun. Það á þó ekki alltaf við.
Söluhagnaðurinn hefur mestur orðið 142,3 milljónir. Það tiltekna dæmi segir hins vegar ekki alla söguna því sú íbúð, þakíbúð 601 á Bryggjugötu 6, var seld fokheld á 620 milljónir króna í mars 2022 og endurseld á 762 milljónir króna hinn 19. desember 2023.
Með hliðsjón af kaupverði má ætla að vandað hafi verið til innréttinga. Því þarf að draga kostnaðinn við að innrétta íbúðina frá endursöluverðinu til að finna út eiginlegan söluhagnað. Þá ber að hafa í huga að seljandi var félagið Dreisam, sem er í eigu kaupandans, Jónasar Hagan Guðmundssonar.
Tvö bílastæði fylgdu með íbúðinni. Almennt fylgdu eitt til tvö stæði hverri íbúð og eru alls hundrað sérmerkt stæði á Austurhöfn sem tilheyra íbúðunum 71.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.