Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri og upplýsingafulltrúi þingflokks Flokks fólksins, segir það ekki vera til umræðu að Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fráfarandi barna- og menntamálaráðherra, segi af sér þingstörfum.
Ásthildur sagði af sér sem ráðherra í gær vegna umfjöllunar um að hún hafi átt samræði með 15 ára gömlum dreng fyrir rúmlega þremur áratugum en Ásthildur var þá sjálf 22 ára. Hún eignaðist í kjölfarið barn með drengnum.
Ásthildur hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins.
Þegar fréttin er skrifuð fer fram ríkisstjórnarfundur og segist Heimir, í samtali við mbl.is, reikna með því að næstu skref séu að fara eftir verklagsreglum um hvernig gengið sé frá afsögn Ásthildar.
„Það er í höndum forsætisráðherra að eiga þau samskipti við forsetann og svo framvegis og ég reikna með að þær séu að ræða það, formenn stjórnarflokkanna, á þeim ríkisstjórnarfundi sem nú stendur yfir.“
Gæti verið farið í það í dag?
„Ég hef ekki hugmynd um það, það er bara algjörlega í þeirra höndum.“
Aðspurður hvort það standi enn til að Ásthildur haldi þingsæti sínu segir Heimir það ekki hafa verið rætt og sé ekki til umræðu.
mbl.is hefur í morgun reynt að ná tali af öllum þingmönnum Flokks fólksins án árangurs. Spurður hvort hægt verði að ná tali af einhverjum þingmönnum flokksins í dag er Heimir efins.
„Það er bara föstudagur og engir nefndarfundir og þingmenn eru bara úti um tær og trissur og ég held að þeir séu ekkert spenntir fyrir að ræða þessi mál. Ég held að það séu bara formenn stjórnarflokkanna sem muni taka það.“
Þá segir Heimir enga fundi vera á dagskrá innan flokksins á næstu dögum um málið.