Málefni jafnréttis- og mannréttindamála hafa nú verið flutt til dómsmálaráðuneytisins frá félagsmálaráðuneytinu.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir skrifstofustjóri heldur áfram að leiða skrifstofuna.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stjórnarráði Íslands en flutningurinn er gerður í kjölfar forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem tók gildi 15. mars.
„Ég sóttist sérstaklega eftir því að fá jafnréttis- og mannréttindamálin til dómsmálaráðuneytisins. Ísland er fremst meðal þjóða þegar kemur að jafnréttismálum. Hins vegar er ofbeldi gegn konum svartur blettur á samfélagi okkar og ég hyggst taka á því með ýmsum aðgerðum, svo sem endurskoðun á lögum og framkvæmd um nálgunarbann.
Með samvinnu jafnréttisskrifstofunnar og þeirrar miklu þekkingar sem fyrir er í dómsmálaráðuneytinu hef ég fulla trú á að við getum náð góðum árangri,“ er haft eftir Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra og ráðherra jafnréttis- og mannréttindamála, í tilkynningunni.
„Það er kominn tími til að dómsmálaráðherra setji jafnréttismál í forgang,“ er enn fremur haft eftir ráðherra.