Aðalsteinn Kjartansson hefur verið ráðinn í starf aðstoðarritstjóra á Heimildinni.
Þetta kemur fram á vef Heimildarinnar.
Aðalsteinn hefur starfað við fjölmiðlun síðan árið 2010. Hann hóf störf á Stundinni árið 2021 áður en að miðillinn sameinaðist Kjarnanum og varð að Heimildinni. Þar á undan starfaði Aðalsteinn hjá RÚV, þar sem hann meðal annars ritstýrði fréttaskýringaþættinum Kveik.
Aðalsteinn hlaut verðlaun Blaðamannafélags Íslands árið 2019 ásamt Helga Seljan, Stefáni Drengssyni og Inga Frey Vilhjálmssyni fyrir umfjöllun um viðskiptahætti Samherja í Namibíu.
Núverandi ritstjóri Heimildarinnar er Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, systir Aðalsteins.