„Ekki kaupa hakakrossbíl“

Mótmælendur komu sér fyrir fyrir utan Tesla-umboðið í Vatnagörðum í …
Mótmælendur komu sér fyrir fyrir utan Tesla-umboðið í Vatnagörðum í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

„Ég var nú ekki að skipuleggja þessi mótmæli, en ég var beðinn að koma og vera með ræðu og ég gerði það og ég tók aðeins þátt í mótmælunum,“ segir Alexandra Briem borgarfulltrúi Pírata um mótmæli er fram fóru fyrir framan Tesla-umboðið í Vatnagörðum í Reykjavík í dag.

Báru mótmælendur skilti ýmist á íslensku eða ensku þar sem lesa mátti áletranir á borð við „ekki kaupa hakakrossbíl“ og „flautaðu ef þú hatar fasisma“.

„Þó að ég hafi ekkert á móti þeim sem keyra Teslur hefur það komið í ljós síðan Tesla varð stór bílaframleiðandi hve aðaleigandi fyrirtækisins á heimsvísu, Elon Musk, er ósvífinn við að beita auðæfum sínum gegn mannréttindum hinsegin fólks, sérstaklega trans fólks, og grafa undan lýðræðinu auk þess að hafa áhrif á kosningar og kosninganiðurstöður.“

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata.
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkasti maður heims gegn mannréttindum

„Í ljósi þess að hann er hvergi kjörinn er eina leiðin til að andæfa honum að mótmæla við fyrirtækin sem auka á auð hans. Ég skil alveg að fólk keypti bíl af honum áður en kom í ljós hvernig hann er, en síðan er komið í ljós hvernig hann er og við getum ekki látið eins og þetta sé bara eins og hvert annað fyrirtæki.

Ríkasti maður heims er gagngert að vinna gegn mannréttindum og lýðræði í heiminum og við þurfum svolítið að eiga samtal um hvort við teljum það ásættanlegt og þá er ég ekki að segja að hann megi ekki hafa sínar skoðanir, en við hljótum þá einnig að mega mótmæla skoðunum hans og kjósa með veskinu,“ segir Alexandra Briem borgarfulltrúi um andófið gegn Musk.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert