Börn og unglingar strjúka ítrekað af meðferðarheimilinu í Blönduhlíð á Vogi og eru dæmi um að sama barnið hafi strokið að minnsta kosti níu sinnum á tveimur vikum, samkvæmt heimildum mbl.is.
Fara börnin út um glugga á annarri hæð og í síðustu viku slasaðist 15 ára gömul stúlka alvarlega og hryggbrotnaði þegar hún féll við stroktilraun. RÚV greindi fyrst frá, en heimildir mbl.is herma það sama.
Í Blönduhlíð fer fram meðferðar- og greiningarvistun fyrir börn og unglinga með alvarlegan hegðunar- og fíknivanda. Barna- og fjölskyldustofa leigir húsnæðið á Vogi tímabundið undir meðferðarheimilið sem var opnað í febrúar síðastliðnum.
Þar sem um leiguhúsnæði er að ræða er ekki heimilt að gera breytingar á húsnæðinu, til að mynda á gluggum, í þeim tilgangi að draga úr líkum á stroki og tryggja öryggi barnanna. Samkvæmt heimildum mbl.is hefur starfsfólk brugðið á það ráð að kaupa fjölda stormjárna, þar sem þau eru alltaf eyðilögð jafnóðum, til að geta skipt um strax. Það dugir hins vegar skammt.
Upphaflega stóð til að meðferðarheimilið Blönduhlíð yrði opnað í Farsældartúni í Mosfellsbæ í desember síðastliðnum, en húsnæðið stóðst ekki brunaúttekt, þrátt fyrir endurbætur. Því brá Barna- og fjölskyldustofa á það ráð að leigja rýmið á Vogi.
Frá því heimilið var opnað á Vogi fyrir rúmum mánuði hafa börn ítrekað strokið þaðan og að þeim verið leitað klukkutímum saman í einhverjum tilfellum.
Samkvæmt heimildum mbl.is, bæði innan úr barnaverndarþjónustunni og meðferðarkerfinu, er það á mörkunum að meðferðaraðilum finnist þeir geta tryggt öryggi barnanna á Vogi.
Úrræðið sé í raun alltof opið fyrir þá skjólstæðinga sem þar eru.
„Það gefur auga leið ef að börn eru komin á þann stað að þau þurfa að fara í inniliggjandi meðferð vegna fíknivanda, þá er ekki hægt að leggja það á þau að takast á við strokfíkn af þessu tagi. Ef það er alltaf opin leið út. Þau eru bara að leita leiða til að halda sínu striki,“ segir einn viðmælenda mbl.is.
Þá gætu börnin allt eins verið heima hjá sér og strokið þaðan, segir viðmælandinn jafnframt. Börnin þurfi að finna fyrir öryggi og að þau sem annast þau hafi fullt vald yfir því sem verið er að gera.
Talað hafi verið um að Blönduhlíð ætti að vera vægara úrræði en Stuðlar, en það vanti eitthvað úrræði sambærilegt því sem Stuðlar voru. Þar er ekki lengur boðið upp á meðferðar- og greiningarvistun en þau fjögur rými sem eru í notkun hafa síðustu mánuði verið nýtt fyrir allra þyngstu tilfellin, afplánun og gæsluvarðhald.
Leigusamningurinn á Vogi er tímabundinn til áramóta, en hvað verður um meðferðarheimilið eftir það er enn óljóst. Ekkert annað sambærilegt úrræði virðist vera í sjónmáli fyrir börn með fjölþættan vanda.
„Ef börn með þetta mikinn vanda þurfa að fara í meðferðarúrræði þá segir það sig sjálft að þau eru komin á þann stað að við þurfum að geta veitt þeim meira aðhald. Ég skil ekki af hverju það er ekki eitthvað að taka við af Stuðlum, eitthvað sambærilegt úrræði,“ segir viðmælandinn.
Ekki sé hægt að leggja það á börnin, meðferðaraðilana og foreldrana að takast á við eilíft strok. Við slíkar aðstæður verði meðferðarstarfið mjög ómarkvisst, enda gangi allt út á að koma í veg fyrir strok eða takast á við eftirköst þess.
„Þetta verður svo ómarkvisst að þetta gengur allt út á þetta. Hvenær endar með því að barn þarf þá bara að fara á neyðarvistun?“ spyr viðmælandinn.
En mbl.is hefur heimildir fyrir því að börn hafi ítrekað þurft að fara í neyðarvistun eftir strok, sem að sjálfsögðu veldur truflun á meðferðinni. Börnin séu þá jafnvel aftur komin í neyslu og í raun aftur á byrjunarreit.