Jóga í ævintýraheimi

Þóra Rós kennir börnum ævintýrajóga.
Þóra Rós kennir börnum ævintýrajóga.

Jógakennarinn Þóra Rós Guðbjartsdóttir lét loks drauminn um barnajógaþætti verða að veruleika og eru nú þættirnir Ævintýrajóga komnir í loftið á RÚV. Þeir eru sýndir á fimmtudögum klukkan 18:25 og eru aðgengilegir í sarpinum.

Reyndi á leikræna tjáningu

„Ég hafði verið að kenna bæði fullorðnum og börnum jóga og þá kviknaði sú hugmynd að búa til sjónvarpsþætti þar sem ég gæti kennt börnum jóga,“ segir hún.

Mig langaði að ná til barnanna og datt þá í hug að í stað hefðbundinnar jógakennslu myndi ég kenna jóga í ævintýraheimi. Ég sendi svo inn hugmynd á hugmyndadaga hjá RÚV og kynnti hugmyndina; að gera stutta þætti þar sem ég kenndi börnum jóga inni í ævintýraheimi,“ segir Þóra.

Þóra Rós segir nauðsynlegt fyrir börn að vinna á kvíða.
Þóra Rós segir nauðsynlegt fyrir börn að vinna á kvíða. mbl.is/Ásdís

„Þeim leist vel á þessa hugmynd og ég byrjaði að vinna þetta með starfsfólki RÚV. Ég vildi hafa það þannig að ég væri að tala beint til krakkana og svo var grafíkin sett inn eftir á. Það reyndi á mína leikrænu tjáningu að vera kannski spennt að sjá eitthvað sem var auðvitað alls ekki þar,“ segir hún og brosir.

Mikill kvíði hjá börnum

„Mig langaði líka að miðla einhverri visku eða speki í lok hvers þáttar; einhverju sem krakkarnir gætu tekið með sér út í daginn,“ segir Þóra og bætir við að með þáttunum fái hún börn til að hreyfa sig í stað þess að sitja kyrr í sófanum.

„Það er ótrúlegt hvað ég hef fengið góð viðbrögð frá foreldrum og börnum,“ segir Þóra, en þættirnir eru átta.

Ævintýrajóga er skemmtilegt fyrir börn og fullorðna.
Ævintýrajóga er skemmtilegt fyrir börn og fullorðna.

„Mér finnst ótrúlega mikilvægt að við séum meðvituð um andlega líðan barnanna okkar og ég held að við mættum vera duglegri að staldra aðeins við í stað þess að þjóta áfram. Börnin okkar eru í svo mörgu; skóla, íþróttum og tómstundum og við leyfum kannski ekki börnunum okkar að vera börn. Það er mikill kvíði hjá börnum og jóga er ein leið til að hægja á og huga að önduninni,“ segir hún, en Þóra er með instagram-síðuna 101yogareykjavik, þar sem hún deilir ýmsum fróðleik.

Ítarlegra viðtal er við Þóru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert