Útlit er fyrir rólegt veður á landinu í dag, að mati veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
Spáir hann hægum vindi og að einhver él verði á sveimi en léttskýjað suðaustanlands. Hiti frá frostmarki og upp í 7 stig yfir daginn, en í kringum frostmark á Norðaustur- og Austurlandi.
Dálítil lægð nálgast landið úr vestri í kvöld og undir miðnætti má búast við rigningu eða slyddu á vestanverðu landinu.
„Í fyrramálið gengur lægðin austur yfir landið, vindur verður áfram hægur og rigning, slydda eða snjókoma með köflum í flestum landshlutum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Kemur þar einnig fram að eftir hádegi á morgun muni stytta upp víðast hvar.