Í gær var alþjóðadagur Downs haldinn og tóku forsetahjónin Halla Tómasdóttir og Björn Skúlason á móti nokkrum fulltrúum Félags áhugafólks um Downs-heilkennið með athöfn á Bessastöðum.
Björn og Halla veittu viðtöku mislitum sokkum og klæddu sig í þá, en slíkum sokkum er ætlað að fagna fjölbreytileikanum. Dagsetningin 21. mars er táknræn og vísar til þess að Downs orsakast af aukalitningi í litningapari 21.
Sameinuðu þjóðirnar lýstu fyrst yfir þessum degi árið 2011. Guðmundur Ármann formaður félagsins sagði heimsóknina hafa verið einstaklega ánægjulega. Móttökur forsetahjónanna hefðu verið hlýjar og góðar. Þessi dagur gæfi félagsmönnum alltaf gott tækifæri til að koma saman með fjölskyldum sínum. „Þetta er jafnan eins og góð fermingarveisla,“ sagði Guðmundur.