Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, er „til hvenær sem er“ að halda flokksþing Framsóknarflokksins og er jafnframt undirbúinn í að leiða flokkinn áfram.
Þessu lýsti Sigurður Ingi yfir í dag í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem nú stendur yfir á Hótel KEA á Akureyri. Þess ber að geta að flokksþing Framsóknarflokksins var síðast haldið í apríl í fyrra en ekki er skylt að halda flokksþing nema á tveggja ára fresti.
Sigurður Ingi hefur verið formaður flokksins frá árinu 2016 og sagði í ræðu sinni að á ferðum sínum síðustu tvo mánuði hefði hann fundið fyrir stuðningi flokksmanna til að gegna formennsku áfram.
Hann hóf ræðu sína á því að árétta að Framsóknarflokkurinn væri hættur að spila vörn og væri nú kominn í sókn í stjórnarandstöðu. Síðar vék hann að sveitarstjórnarkosningum sem fara fram á næsta ári og talaði um mikilvægi þeirra.
Farið var um víðan völl í ræðu Sigurðar Inga, meðal annars kom hann að því að ætlunin sé að koma á fót Framsóknarhlaðvarpi undir stjórn Lilju Rannveigar Sigurðardóttur, varaþingmanns, og einnig stóð til að gera nýja vefsíðu fyrir flokkinn í þeirri viðleitni að auka sýnileika flokksins.
Í lok ræðunnar árétti Sigurður Ingi að óráðlegt væri að sundra þjóðinni með því að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið.