Smáforrit styður við heilbrigðisþjónustu

Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala.
Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er mikill áhugi hjá okkur á hjartadeildinni að innleiða stafrænar lausnir inn í hefðbundna klíníska heilbrigðisþjónustu. Þetta er verkefni sem mun taka tíma og er auðvitað talsverð breyting á hefðbundnu vinnulagi og margt sem þarf að huga að. Við þurfum að skoða hentugasta vinnulagið, hvaða sjúklingahópar henta best fyrir svona nálgun og tæknin mun svo vafalaust þróast áfram. En að mínu mati er þetta áhugvert tækifæri til að þróa með afgerandi hætti nýjar leiðir í samskiptum sjúklinga við heilbrigðiskerfið.“

Þetta segir Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala, um nýja smáforritið sem deildin hefur verið að prófa en það var þróað af íslenska heilbrigðistæknifyrirtækinu Sidekick Health. Davíð segir samstarfið hafa reynst gagnlegt til að bæta smáforritið enn frekar.

Þessi stafræna lausn er þríþætt:

Í fyrsta lagi fjarvöktunarþáttur, það er fimm til sex spurningar með valkostum um svör fyrir hvern tiltekin sjúkdóm. Algrími vinnur úr svörunum, tekur inn stafræn lífsmörk þegar það er í boði, stigar sjúklinga og merkir grænt, gult, rautt á skjáborði og viðbrögðin ráðast af litnum. Grænn þýðir stöðugt ástand, gulur minniháttar frávik og rauður meiriháttar frávik. Ef sjúklingur stigast gulur er aukið við tíðni vöktunar en ef hann kemur upp rauður er haft samband við hann.

Í annan stað hvatning og stuðningur til heilsueflandi lífsstíls með m.a. vönduðum myndböndum, hvatningarskilaboðum auk fræðsluefnis um sjúkdóminn.

Í þriðja lagi samskiptagátt milli skjólstæðings og heilbrigðisstarfsmanns og heilsumarkþjálfa.

Lofar góðu fyrir framhaldið

Undanfarin þrjú ár hefur Landspítali verið að gera vísindarannsóknir í samstarfi við Sidekick Health, annars vegar á hópi einstaklinga með hjartabilun og hins vegar með kransæðasjúkdóm. Fyrstu niðurstöður eru ljósar og þar kom sitthvað áhugavert í ljós, að sögn Davíðs. Í rannsóknunum var verið að bera saman hefðbundna nálgun á móti hefðbundinni nálgun að viðbættri stafrænu lausninni. „Við vorum í raun fyrst og fremst að prófa hvort stafræn lausn hugnaðist sjúklingum, það er kannski allra fyrsta skrefið.“

Mjög góð svörun var meðal þátttakenda í fjarvöktunarþættinum, yfir 90% voru með í henni allt rannsóknartímabilið, ekki síst eldri sjúklingar, sem Davíð segir lofa góðu fyrir framhaldið. Aðrar lykil niðurstöður voru aukin lífsgæði voru hjá þeim sem höfðu verstu stig hjartabilunar miðað við samanburðar­hópinn. Betri þekking varð á sjúkdómnum og bætt sjálfsumönnun hjá hjartabiluðum. Brjóstverkjum fækkaði hjá þeim sem höfðu kransæðasjúkdóm. Einnig var marktæk lækkun áhættuþátta hjartasjúkdóma, það er blóðþrýstings, blóðsykurs og þríglýseríðs sem er ein af lykilblóðfitunum. Mikil þátttaka var í lífsstílshvetjandi hlutanum, yfir 80% þátttakenda voru virk allt rannsóknartímabilið.

Nánar er rætt við Davíð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert