Nokkuð langt er á milli þeirra ólíku staða Reykja í Hrútafirði og Singapúr í Suðaustur-Asíu. Kristín Þorsteinsdóttir þekkir báða þessa staði vel; alin upp í íslenskri sveit en býr nú og starfar í Singapúr, ein fimm Íslendinga sem þar búa. Kristín var heima í stuttu stoppi um daginn og nýtti tímann til að heimsækja fjölskylduna í Hrútafirði en gaf sér tíma til að hitta blaðamann á kaffihúsi í Reykjavík rétt áður en lagt var af stað fljúgandi yfir hálfan hnöttinn.
„Þetta hefur verið skemmtilegur tími í Singapúr,“ segir Kristín sem segir að í Singapúr sé mikill hrærigrautur þjóða. Rúmur helmingur er Singapúrar en tæpur helmingur útlendingar. Stéttaskiptingin er mikil því þarna er mikið af ofurríku fólki, að sögn Kristínar, og hinn frægi Gini-stuðull sem mælir ójöfnuð er hvergi jafn hár.
„Singapúr er mjög dýrt land og ákveðnir hlutir, ekki allir þó, miklu dýrari en á Íslandi. Húsnæði hér er mjög dýrt og við leigjum, og bílar eru alger lúxus, en til þess að eiga bíl þarftu að kaupa sérstakt leyfi sem kostar jafn mikið og bíllinn. Við eigum ekki bíl enda er almenningssamgöngukerfið hér mjög gott og vel hægt að komast af án bíls. Ýmsar matvörur, eins og mjólkurvörur, eru líka ansi dýrar,“ segir hún.
„Landið er á stærð við Langjökul en hér búa sex milljónir manna. Hér er sama hitastigið allt árið, um þrjátíu gráður, og þrúgandi raki. Hér er stundum svo heitt að krakkar geta ekki verið úti að leika yfir hádaginn, nema í sundlauginni og þá þarf að passa að brenna ekki. Dóttir mín er til dæmis alltaf í síðerma sundbol,“ segir Kristín.
„Ég get orðið pirruð á hitanum og maður er ekki mikið úti, nema eldsnemma á morgnana eða eftir fjögur, fimm á daginn. Þótt það hljómi ótrúlega þá er svona hiti og sól lýjandi til lengdar,“ segir Kristín.
„Hér er dauðarefsing við lýði og svo nota þeir rassskellingar við hinu og þessu. Í covid voru strangar reglur en svo rann upp fyrir okkur að það var ekki sama hver braut af sér, Jón eða séra Jón. Eitt sinn voru fimm útlendingar reknir úr landi þegar þeir brutu sóttvarnarreglur með því að drekka bjór úti á götu, en Singapúrar fengu öðruvísi meðferð við svipuðum brotum. Undir það síðasta voru reglurnar komnar út í algjöra vitleysu,“ segir Kristín, en þau voru innilokuð í landinu í 20 mánuði.
„Við hefðum getað farið en ekki þá fengið að koma aftur inn í landið.“
Dóttir Kristínar, Salóme, er fædd og uppalin í Singapúr en hún er nú tólf ára og eru þau farin að hugsa sér til hreyfings. Salóme er í franska skólanum í Singapúr, en nú er kominn tími til að hún komist í öðruvísi umhverfi.
„Salóme þarf að kynnast einhverju öðru en þessu ofurverndaða umhverfi. Hún hefur alist upp við svo miklar reglur sem þarf að fylgja til hins ýtrasta, sama hversu heimskulegar þær eru. Hún þarf að verða meira „street smart“ og læra kannski smá borgaralega óhlýðni. Singapúrskt menntakerfi er oft á toppi PISA-könnunarinnar fyrir frábæran árangur í stærðfræði en það er kannski minni áhersla á greinar sem krefjast sköpunargáfu og krítískrar hugsunar. Annars endar þú með þjóð sem veður uppi og fer að spyrja spurninga og jafnvel heimta aukin mannréttindi og prentfrelsi og það er sennilega ekki í takt við núverandi stjórnskipulag,“ segir hún.
„En án skapandi hugsunar verður auðvitað engin nýsköpun, sem stjórnvöld átta sig á, og því er verið að reyna að finna jafnvægi, en það er ekki auðvelt.“
„Við erum á leið til Frakklands þar sem verða væntanlega næg tækifæri fyrir Salóme til að læra mótmæli og borgaralega óhlýðni. Ég veit ekki hvenær ég get dregið þau til að flytja til Íslands því sambýlismaður minn og dóttir þola ekki kulda,“ segir Kristín og brosir.
Ítarlegt viðtal er við Kristínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.