Tímalína og trúnaðarsamskipti óljós

Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna – Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Kristrún Frostadóttir og Inga …
Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna – Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Kristrún Frostadóttir og Inga Sæland – voru ekki ýkja glaðbeittar með blaðamönnum eftir ríkisstjórnarfund í gær. Morgunblaðið/Eyþór

Blaðamenn voru varaðir við því í gærmorgun að ríkisstjórnarfundurinn yrði að líkindum óvenjulangur að þessu sinni. Þegar leið að hádegi lukust dyrnar varlega upp og ráðherrarnir læddust út einn af öðrum, brostu vandræðalega og gengu niður hringstigann af fimmtu hæð frekar en að troðast í lyftuna.

Fyrir utan fundarsal ríkisstjórnarinnar tóku oddvitar ríkisstjórnarflokkanna sér stöðu til þess að ræða hvernig komið væri fyrir ríkisstjórninni eftir að Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, greindi óvænt frá því á fimmtudagskvöld að hún hygðist segja af sér.

Óhætt er að segja að valkyrjurnar hafi haft mjög mismikið að gera á fundinum. Þar bar Kristrún Frostadóttir hitann og þungann af spurningahríð blaðamanna, Inga Sæland fékk nokkrar spurningar sem lutu helst að næstu skrefum Flokks fólksins, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var svo að segja stikkfrí.

Ásta Lóa lofsungin

Fram kom, engum að óvörum, að afsögn barnamálaráðherra hefði verið til umræðu á ríkisstjórnarfundi, en Inga sagði að ekkert væri afráðið um hver fyllti í skarð Ásthildar Lóu. Hins vegar notaði hún tækifærið til þess að ausa hinn fráfarandi ráðherra lofi og sagði hana hafa tekið hetjulega ákvörðun með því að segja af sér.

Fréttamaður Rúv. minnti Ingu á að ráðherrann hefði eignast barn með barni, en ákvörðunin um afsögn hefði ekki komið fyrr en aðrir hefðu komist á snoðir um það, nefnilega fjölmiðlar. Spurð hvort hún tæki undir orð Ásthildar Lóu um að erfitt fjölmiðlaumhverfi væri aðalástæða afsagnarinnar kvaðst hún ekki þekkja til þeirra ummæla.

Þá beindist athyglin að Kristrúnu, sem minnt var á að hún hefði þekkt til málavöxtu í viku og spurð hvað hún hefði eiginlega aðhafst þann tíma. Hvort hún hefði gert eitthvað í málinu.

„Málið er enn þá opið í málaskrá,“ sagði Kristrún. „En það þótti ekki við hæfi að veita einkafund með forsætisráðherra á þessum tímapunkti.“

Hún þvertók hins vegar fyrir að hafa rætt málið við Ásthildi Lóu eða aðra, það hefði verið trúnaðarbrestur hefði hún gert það, enda hefði hún ekki fengið staðfestingu á sannleiksgildi ábendingarinnar þegar þar var komið sögu.

Forsætisráðherra nefndi að ráðuneyti sínu bærist fjöldinn allur af sambærilegum erindum, þar sem verið væri að vekja athygli á persónulegum sögum af ýmsu tagi.

Hún ítrekaði hvað eftir annað að vangaveltur um trúnaðarrof ættu ekki við. Upphaflegu fundarbeiðninni hefði fylgt athugasemd um að ef forsætisráðherra vildi bjóða barnamálaráðherra að vera viðstaddur fundinn væri það sjálfsagt. Kristrún sagði það fela í sér að nefna hefðu mátt fundarbeiðandann við barnamálaráðherra.

Blaðamenn spurðu talsvert út í þá staðhæfingu, sér í lagi þar sem hún hefði ákveðið að eiga fundinn ekki, en barnamálaráðherra hafði hins vegar samband við fundarbeiðanda, sem hafði talið að trúnaðurinn um nafn sitt væri ófrávíkjanlegur.

Ber ekki ábyrgð á áreiti

Forsætisráðherra sagði að sér hefði verið alls ókunnugt um að barnamálaráðherrann myndi hafa uppi á fundarbeiðandanum og aftók að hún bæri nokkra ábyrgð á áreiti ráðherrans.

Hins vegar mætti einnig spyrja hvort sú staðreynd að málið væri enn opið á málaskrá ráðuneytisins fæli ekki í sér að það væri allt undir trúnaði.

Kristrún var einnig spurð út í „leiðréttingu“ sem hún gerði við frétt Rúv. um hvernig samskiptum við barnamálaráðherra var háttað, en henni ber ekki saman við frásögn ráðherrans, sem segir að Ólafur Kjaran Árnason, aðstoðarmaður Kristrúnar, hafi haft samband við sig. Kristrún eyddi því, sagðist best vita hvað væri satt og rétt í því öllu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert