Tugþúsundir með ógreindan kæfisvefn á Íslandi

Allir þurfa að hvílast vel til að geta tekist á …
Allir þurfa að hvílast vel til að geta tekist á við amstur daganna. Ljósmynd/Unsplash

Líklega eru um 20-25 þúsund manns á Íslandi með ógreindan kæfisvefn. Í dag eru 12 þúsund manns í meðferð vegna kæfisvefns en á næstu árum gæti verið að 25-30 þúsund Íslendingar verði með kæfisvefnsvél.

Þetta kemur fram í svari Ásu Jóhannesdóttur, deildarstjóra Svefnmiðstöðvar Landspítala, í svari við fyrirspurn mbl.is.

Biðtími eftir niðurstöðu úr svefnrannsókn getur tekið einhvern tíma, en mbl.is hefur dæmi um sjúkling sem fékk þau svör frá Landspítalanum að hann þyrfti að bíða í sex mánuði eftir greiningu úr svefnrannsókn. Þar að auki þyrfti hann að bíða í aðra átta mánuði eftir sjálfu svefntækinu.

Er því hér um að ræða 14 mánuði frá svefnrannsókninni og þar til meðferð gæti hafist.

Biðtími eftir svefnrannsókn innan við tvær vikur

„Það er að vissu leyti rétt að við erum með langan biðlista en þar með er ekki öll sagan sögð. Við forgangsröðum sjúklingum á öllum stigum ferlisins,“ segir Ása.

Nefnir hún að tekist hafi að minnka biðtíma eftir því að komast í sjálfa rannsóknina verulega og er hún núna innan við tvær vikur.

Þeir sem greinast með alvarlegan kæfisvefn, eru með mikil einkenni og hafa aðra sjúkdóma fá meðferð innan tveggja mánaða.

Ferlið tekur svo um 2-6 mánuði fyrir þá sem eru með miðlungs kæfisvefn en þeir sem eru með vægan kæfisvefn geta þurft að bíða á bilinu 10-12 mánuði eftir niðurstöðu úr svefnrannsókninni og meðferð.

„Þarna höfum við náð að minnka biðtímann verulega undanfarið fyrir stóran hluta þessa hóps með því að hefja meðferð sama dag og þú hittir lækni.“

Ása Jóhannesdóttir.
Ása Jóhannesdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Mikil fjölgun á nokkrum árum

Hún bendir á að árið 2024 hafi Landspítalanum borist 2900 beiðnir um að framkvæma svefnrannsókn. Landspítalanum bárust einnig 3400 beiðnir um meðferð með kæfisvefnsvél.

„Til að lýsa aukningunni má geta þess að 2019 hófu tæplega 1000 manns meðferð við kæfisvefni á Landspítala. Fjórum árum síðar vorum við komin upp í um 2000 einstaklinga sem hófu meðferð á árinu.

Það eru 12.000 einstaklingar á meðferð í dag og við þurfum að halda vel á spöðunum því spár gera ráð fyrir frekari fjölgun. Einnig eru margir í samfélaginu með ógreindan kæfisvefn, líklega milli 20-25.000 manns. Þess má líka geta að þótt kæfisvefn sé algengari meðal karla eru konur að greinast í auknum mæli,“ segir Ása.

„Þetta er áskorun

Hún segir að með vaxandi fólksfjölgun, öldrun þjóðar og aukinni offitu áætli Landspítalinn að innan 5 - 10 ára verði 25-30.000 einstaklingar með svefnöndunarvél á Íslandi.

„Þetta er áskorun og við verðum að hugsa í lausnum. Þekkingu og nýsköpun, nýting gervigreindar, fleygir fram í greininni. Við þurfum að nýta tæknina bæði í greiningu og þjónustu. Við þurfum líka að efla og fræða almenning um mikilvægi svefns og fyrirbyggjandi lífstílsbreytingar,“ segir hún.

Hún segir að staðan á biðlistum sé síbreytileg. Fyrir og um áramót var til dæmis mannekla og því erfitt að halda í við aukna ásókn í meðferð.

Hún segir þó að það horfi til betri vega og að það ætti að ganga vel að manna allar stöður á næstunni.

Breytingar voru gerðar um áramótin

„Um áramótin voru gerðar breytingar í skipulagi starfseminnar með það að markmiði að auka skilvirkni. Við sameinuðum tvær einingar og erum nú Svefnmiðstöð Landspítala. Verið er að þjálfa fleiri sérhæfða lækna og von er til að svefnlækningar fái aukið vægi innan heilbrigðiskerfisins. Landspítalinn vinnur náið og mun auka samvinnu við heilsugæsluna, sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir um landið, Læknasetrið, Hjartamiðstöðina og fleiri staði,“ segir Ása.

Ása segir að þó að biðlistinn sé langur þá hafi hann í raun styttst hlutfallslega miðað við fólksfjölgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert