Fjölmiðlanefnd hefur lagt tveggja milljóna króna sekt á Sýn hf. Sektin er lögð á vegna auglýsinga sem birtust á Vísi sem að mati Fjölmiðlanefndar voru auglýsingar á áfengi en bann við slíkum auglýsingum er að finna í lögum um fjölmiðla.
Umræddar auglýsingar voru að finna á Vísi, 10. júní síðastliðinn. Báðar voru þær auglýsingar fyrir Víking brugghús, önnur þeirra sýndi fullt glas af bjór ásamt vörumerki fyrirtækisins en á hinni mátti sjá heiti brugghússins ásamt slagorðinu „Yðar skál“. Hvergi á auglýsingunum var að finna fyrirvara um að um léttöl eða óáfengan bjór væri að ræða.
Fjölmiðlanefnd taldi að með birtingu auglýsinganna hafi Sýn margítrekað brotið gegn 4. mgr. 37. laga um fjölmiðla en það er ákvæði laganna sem bannar áfengisauglýsingar. Taldi Fjölmiðlanefnd því hæfilegt í ljósi aðstæðna að sektin sem lögð væri á Sýn næmi tveimur milljónum króna.