Leiðtogafundur ISTP hefst á morgun í Hörpu. Fundurinn er einn stærsti vettvangur samtals menntamálayfirvalda og stéttarfélaga kennara í löndum OECD.
Á fundinn koma 25 menntamálaráðherrar og kennaraforysta þátttökuríkja saman ásamt sendinefndum OECD og Alþjóðlegu kennarasamtakanna til að ræða málefni kennara og menntaumbætur. Alls er gert ráð fyrir um 200 þátttakendum frá 24 ríkjum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Fundurinn hefur verið haldinn árlega frá árinu 2011, en er nú haldinn í fyrsta sinn á Íslandi. Um er að ræða stærsta alþjóðlega fund leiðtoga á sviði menntamála sem haldinn hefur verið á Íslandi.
Nýr mennta- og barnamálaráðherra tekur við af Ásthildi Lóu Þórsdóttur í dag. Boðað hefur verið til ríkisráðsfunda á Bessastöðum í dag. Hefst sá fyrri klukkan 15 en sá síðari klukkan 15.15.
Ekki hefur fengist staðfest hver það er sem tekur við af Ásthildi Lóu, en heimildir Ríkisútvarpsins herma að Guðmundir Ingi Kristinsson taki við keflinu.
Væntanlega verður fyrsta verk nýs mennta- og barnamálaráðherra að sækja leiðtogafundinn á morgun.