Öllum þeim þrettán einstaklingum sem voru handteknir í tengslum við hópslagsmál og stunguárás í miðbæ Reykjavíkur á föstudagskvöld hefur verið sleppt úr haldi.
Málið er enn til rannsóknar hjá lögreglu.
Þetta segir Agnes Eide Kristínardóttir yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Árásin átti sér stað á Ingólfstorgi seint á föstudagskvöld og var lögreglan með mikinn viðbúnað á svæðinu.
Tíu voru handteknir í tengslum við stunguárásina og þrír í tengslum við hópslagsmál sem áttu sér stað í kjölfarið. Agnes gat ekki veitt upplýsingar um hvort tengsl séu á milli hópanna tveggja en segir að það sé eitt af því sem lögreglan er með til skoðunar.
Tveir voru lagðir inn á sjúkrahús í kjölfar stunguárásarinnar og hópslagsmálanna en þeir eru nú útskrifaðir. Annar var stunginn í þrígang en hinn var barinn í höfuðið með vopni.
Agnes kvaðst ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.