Sagnfræðingurinn og blaðamaðurinn Guðmundur Magnússon vinnur að ævisögu Jóhanns Jónssonar skálds (1896-1932) en Jóhann var afabróðir Guðmundar. Jóhann lést ungur úr berklum en skildi eftir sig ljóð sem lifa með þjóðinni og eru talin meðal þeirra sem marka upphaf nútímaljóðagerðar á Íslandi.
Ljóðið Söknuð þekkja margir en það hefst á orðunum „Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað“. Jóhann átti erfiða ævi og barðist bæði við fátækt og berkla sem hann fékk fyrst sem ungur drengur í fótinn og gerði hann haltan fyrir lífstíð. Nítján ára gamall átti Jóhann í ástarsambandi við fráskilda þriggja barna móður í Reykjavík, Elínu Jónsdóttur Thorarensen (1881-1956), um fimmtán árum eldri.
Slíkt þótti ekki við hæfi snemma á tuttugustu öldinni og fundu þau bæði fyrir fordómum og hneykslun fólks vegna sambandsins. Þegar Elín varð barnshafandi ákvað hún að leyna því og fór til Kaupmannahafnar þar sem hún fæddi dreng sem hún gaf dönskum hjónum búsettum á Jótlandi.
Ævisagan um Jóhann er enn í vinnslu, en Guðmundur hefur lengi haft áhuga á að kafa dýpra og finna fleiri heimildir sem varpað gætu ljósi á ævi Jóhanns.
„Það hefur alltaf verið talað mikið um Jóhann Jónsson í minni fjölskyldu og ýmsar ráðgátur um hans ævi. Við höfum reynt að halda utan um gögn um hann sem ekki eru á söfnum,“ segir Guðmundur og rekur stuttlega söguna af kynnum Jóhanns og Elínar.
„Sumarið 1915 var Jóhann, þá við nám í Reykjavík, að leita að stað til að borða á, en á þessum tíma var algengt að námsmenn og verslunarmenn borðuðu hádegismat hjá matseljum í heimahúsum. Jóhanni var bent á Elínu Thorarensen í Þingholtsstræti 18 og var sagt að hún væri með laust pláss. Það var upphaf þeirra kynna. Hún heillaðist strax af honum og það hefur verið gagnkvæmt. Í rúmlega eitt ár skapast sterkt samband á milli þeirra, þótt hann væri rétt nítján ára en hún 34 ára,“ segir hann.
„Þegar þau Elín og Jóhann fara hvort í sína áttina haustið 1916, hann norður til Akureyrar og hún til Kaupmannahafnar, er ekki ósætti á milli þeirra heldur virðist Elín hafa komist að þeirri niðurstöðu að samband þeirra gæti ekki gengið og það skaðaði framtíð Jóhanns. Hún hefur verið orðin barnshafandi í ágúst 1916 og fór út í lok september. Barnið fæddist svo í maí 1917, en Jóhann virðist ekki hafa vitað af því.
Elín hefur viljað forðast óþægindi og niðurlægingu bæjarslúðursins. Hún fór með danska skipinu Íslandi en samferða henni var guðfræðingurinn Friðrik Aðalsteinn Friðriksson sem var þá á leiðinni til Seyðisfjarðar. Þau þekktust vel, en hann var æskuvinur Jóhanns frá Ólafsvík. Hún trúði Friðriki fyrir því að hún væri barnshafandi, en bætti við: „Ekki segja Jóhanni.“ Þetta er í rauninni það eina sem við vissum fyrir víst um þetta mál fram að þessu,“ segir Guðmundur.
„Eftir sex ára dvöl kom Elín heim frá Kaupmannahöfn árið 1922, og stofnaði aftur til matsölu í Reykjavík,“ segir Guðmundur.
„Hún og Jóhann sáust aldrei aftur, en hann fór til Þýskalands árið 1921 og átti ekki afturkvæmt,“ segir Guðmundur. Jóhann lést úr berklum í Leipzig haustið 1932.
Löngu síðar, árið 1947, ákvað Elín að segja sögu þeirra.
„Þá var hún komin á sjötugsaldur og skrifaði litla bók sem heitir Angantýr, en það var nafnið sem hún kallaði hann, en hann kallaði hana Brynhildi. Þetta er mjög einlæg frásögn og um margt merkileg, en það þótti nú ekki nógu gott í gömlu Reykjavík að hún væri að skrifa svona. Þetta vakti sárindi í fjölskyldu hennar og hjá ýmsum sem annt var um minningu Jóhanns.
Elsti sonur Elínar, Jón Thorarensen, sem þá var orðinn prestur, er sagður hafa gengið í allar bókabúðir borgarinnar, keypt þær bækur sem hann komst yfir og fargað. Svona var viðkvæmnin fyrir þessu mikil,“ segir Guðmundur, en þess má geta að hvergi í bókinni er minnst á barnið, heldur aðeins ástarsambandið.
„En við útgáfu bókarinnar fór sagan um barnið aftur á flug í fjölskyldunum, en var aldrei til neins staðar á prenti. Það var ekki fyrr en við endurútgáfu Angantýs árið 2011 að minnst er á barnið, en Soffía Auður Birgisdóttir sá um þá útgáfu. Hún hafði samband við mig og ég reyndi að afla upplýsinga um þetta en varð ekki ágengt. Í bókinni segir í eftirmála Soffíu að ekki sé vitað hvort þetta barn hafi fæðst eða hvað hafi orðið um það.“
Fyrir nokkrum dögum rakst Guðmundur á blogg hjá Þórdísi Gísladóttur skáldkonu sem er stödd í Kaupmannahöfn að kanna gögn um ævi íslenskra kvenna í borginni á síðustu öld.
„Ég hafði ætlað mér að fara út í haust og leita gagna, en frestaði ferðinni þegar húsnæði brást. Ég skrifaði því Þórdísi og spurði hana hvort hún hefði nokkuð rekist á nafn Elínar í öllum þessum kvennaskjölum. Daginn eftir svaraði hún mér og sagði það ótrúlega tilviljun að einmitt daginn áður hefði hún verið að fletta bók dönsku Mæðrahjálparinnar frá árinu 1917 og þar stendur að Elín hafi notið aðstoðar hennar með nýfætt barn.
Faðir þess sé Jóhann Jónsson. Þetta er fyrsta skriflega heimildin um að barnið hafi verið til,“ segir Guðmundur, sem síðar bað Þórdísi, ef hún hefði tök á, að kanna málið betur og lét henni í té heimilisföng sem gætu hjálpað. Þess má geta að hægt er að lesa nánar um rannsókn og fundi Þórdísar á thordisgisla.blogspot.com.
„Þórdís er afar fróð og vandvirk og henni tókst að rekja feril barnsins frá fæðingardeild spítalans í Kaupmannahöfn og alveg þar til drengurinn var ættleiddur af bændafólki á Norður-Jótlandi. Svo fann hún út að hann dó úr berklum árið 1922 og eins að hjónin höfðu eignast annan dreng sem fékk sama nafn það ár, Knud Østergaard,“ segir hann.
Guðmundur hafði þá samband við Østergaard-fjölskylduna og fékk að vita að sá drengur hafði einnig verið ættleiddur, sama ár og þau misstu Knud. Fékk hann þá sama nafn og hinn látni sonur Jóhanns og Elínar. Frá dóttur Knuds yngri fékk hann tvær myndir af Knud litla, barni Jóhanns og Elínar. Er þetta í fyrsta skipti sem birtar eru ljósmyndir af litla drengnum sem Jóhann virðist aldrei hafa vitað að hann ætti.
Ítarlega er rætt við Guðmund í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um málið.