Guðmundur nýr ráðherra og Ragnar þingflokksformaður

Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi Kristinsson verður nýr mennta- og barnamálaráðherra og tekur við embættinu af Ásthildi Lóu Þórsdóttur í dag. Flokkur fólksins staðfestir þetta í tilkynningu.

Segir þar að Guðmundur sé einn reynslumesti þingmaður flokksins og hafi setið á Alþingi allt frá því flokkurinn fékk fyrst kjörna fulltrúa á þing.

Ragnar Þór Ingólfsson tekur við embætti þingflokksformanns af Guðmundi Inga.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir tekur við af Guðmundi Inga sem formaður velferðarnefndar og þá verður Sigurjón Þórðarson fulltrúi flokksins í Íslandsdeild Norðurlandaráðs.

Þakka Ásthildi Lóu fyrir frábæra frammistöðu  

„Flokkur fólksins þakkar Ásthildi Lóu fyrir frábæra frammistöðu í embætti mennta- og barnamálaráðherra þar sem hún hafði náð að koma mörgum af baráttumálum flokksins og ríkisstjórnarinnar vel áleiðis. Guðmundur Ingi tekur því við góðu búi og nýtur þess sem Ásthildur Lóa hefur lagt grunninn að,“ segir í tilkynningu.

Segir þar líka að innan Flokks fólksins ríki fullt traust til Ásthildar Lóu.

„Félaga hennar í þingflokknum hlakkar til að fá hana aftur til starfa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert