Hlánar annað kvöld

Annað kvöld hlánar um landið vestanvert.
Annað kvöld hlánar um landið vestanvert. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á morgun nálgast lægðardrag landið úr suðvestri og mun úrkomusvæði ganga til norðausturs yfir landið.

Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að spáð sé austan- og suðaustanátt og verður vindur yfirleitt á bilinu 5-15 m/s. Hvassast verður við suðvesturströndina.

Sunnan til á landinu verður úrkoman ýmist rigning, slydda eða snjókoma. Hiti verður á bilinu 0 til 6 stig.

Norðan- og austanlands verður hins vegar þurrt framan af degi og vægt frost, en seinnipartinn má búast við snjókomu með köflum á þeim slóðum.

Annað kvöld verður vindur svo suðlægari og það hlánar um landið vestanvert.

Miðja lægðarinnar á miðvikudag

Á þriðjudag er útlit fyrir suðvestan og vestan 8-13 m/s og skúri eða slydduél, en yfirleitt þurrt á austanverðu landinu. Þá mun draga úr vindi síðdegis.

Hiti verður á bilinu 1 til 8 stig, hlýjast á Austurlandi, en kaldast á Vestfjörðum.

Á miðvikudag er síðan útlit fyrir að miðja lægðar gangi yfir landið.

„Sú lægð virðist eiga að vera dýpri en lægðir helgarinnar og því fylgir meiri vindur og úrkoma,“ ritar veðurfræðingur og bætir við að jafnframt verði veðrinu misskipt milli landshluta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert