Í góðu lagi að aðkoma ráðuneytisins verði skoðuð

Kristrún gerir ekki ráð fyrir stefnubreytingu í málefnum barna og …
Kristrún gerir ekki ráð fyrir stefnubreytingu í málefnum barna og menntamála. mbl.is/Ólafur Árdal

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir það vera í góðu lagi að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki til umfjöllunar hlutverk ráðuneytis hennar og mögulegt trúnaðarbrot þess gagnvart konu sem óskaði eftir einkafundi með Kristrúnu um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur. 

„Það er í góðu lagi að þau taki þetta mál fyrir enda geta þau farið í þau mál sem þau telja mikilvæg,“ sagði Kristrún. 

Deilt hefur verið um hvort það hafi verið trúnaðarbrot af hálfu ráðuneytisins að gefa aðstoðarmanni Ásthildar upplýsingar um nafn og heimilisfang konu sem vildi einkafund með Kristrúnu til að ræða mál Ásthildar. 

Ásthildur sagði af sér sem ráðherra í kjölfar fréttaflutnings um að hún hafi eignast barn með dreng sem var tæplega 17 ára þegar hún var á 23. aldursári. 

Tekur á að kveðja góðan kollega

Aðspurð kveðst Kristrún spennt til frekara samstarfs með Guðmundi Inga Kristinssyni sem tók við embætti mennta- og barnamálaráðherra í dag eftir að Ásthildur Lóa sagði af sér á fimmtudagskvöld. 

Segir Kristrún að ekki sé gert ráð fyrir stefnubreytingu innan málaflokksins og segir að unnið verði út frá „sterkum stjórnarsáttmála.“

Hefur þetta mál haft áhrif á stjórnarsamstarfið?

„Þetta hefur auðvitað áhrif á okkur. Þetta er manneskja sem við unnum vel með og auðvitað tekur það á að kveðja góðan kollega. En það er góð tilfinning inni í ríkisstjórninni.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert