Þór Símon, sonur Ásthildar Lóu Þórsdóttur, sem hún eignaðist með 16 ára dreng þegar hún var tæplega 23 ára fyrir 36 árum, kveðst stoltur af því hvernig móðir hans hefur tekist á við fréttaflutning um málið.
Hann segir að hann hafi aldrei átt erfitt með að eiga í litlu sambandi við blóðföður sinn fyrr en að fréttamiðlar fóru að fjalla um málið.
„Þá því miður vegna tilvistar hans frekar en fjarveru,“ segir Þór í færslu á Facebook.
Rúv greindi frá því á fimmtudag að Ásthildur Lóa hefði, fyrir 36 árum, eignast barn með dreng sem var að verða 17 ára þegar hún var á 23. aldursári. Í fréttaflutningi Rúv um málið kom fram að um tálmun hafi verið að ræða og að barnsfaðirinn hefði einungis fengið að sjá son sinn tvo klukkutíma á mánuði, sem gerir um sólarhring á ári.
„Hvað meinta tálmun varðar þá finnst mér þær fullyrðingar í besta falli hlægilegar. Það er ekki við mömmu mína að sakast að ég hafi ekki átt samband við blóðföður minn á bernskuárunum og hvað þá núna þegar ég er fullorðinn maður. Það var aldrei neinn feluleikur í kringum faðerni mitt. Mamma sagði mér frá honum þegar ég var pínulítill,“ skrifar Þór.
Segir Þór að hann vilji ekki tala illa um blóðföður sinn. Hann hafi hitt hann og fjölskyldu hans fyrir 16 árum sem hafi verið góð minning, þar til á fimmtudag.
„Ég hitti fjölskyldu hans fyrir 16 árum og þau voru yndisleg. Það var, að minnsta kosti þangað til á fimmtudag, einungis góð minning. Staðan er hins vegar þannig núna að búið er að draga mig, fjölskyldu mína og blóðföður minn inn í fjölmiðlastorm.“
Lýsir Þór því hvernig móðir hans hefur tekist á við málið líkt og aðrar aðstæður í hennar lífi.
„Hvernig hún barðist með kjafti og klóm fyrir mig og mína vellíðan þegar ég lenti í einelti í grunnskóla. Hvernig hún barðist fyrir húsinu okkar og aleigu eftir hrun gegn ofurefli og gafst aldrei upp. Hvernig hún hlífði mér og bróður mínum fyrir öllu gríðarlegu stressinu sem fylgdi á þeim tíma.
Hvernig sú barátta leiddi hana í að berjast fyrir aðra sem höfðu lent í sömu klóm og hún í gegnum Hagsmunasamtök heimilanna og að lokum hvernig sú barátta leiddi hana á þing og að lokum í ráðherrastól fjórum árum síðar. Hún hefur alltaf verið frábær mamma, staðið sig mjög vel sem þingmaður og síðan ráðherra þótt í því embætti hafi hún fengið alltof stuttan tíma til að sanna sig.“