Leggur til breytingar á lögum um ökuskírteini

Nanna segir að lögin ættu að taka tillit til breyttra …
Nanna segir að lögin ættu að taka tillit til breyttra aðstæðna í samfélaginu. Samsett mynd/mbl.is/María Matthíasdóttir/Colourbox

Nokkrir þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram frumvarp sem kveður á um lengri gildistíma ökuskírteina einstaklinga sem eru 65 ára og eldri. Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, þingmaður Miðflokksins og frummælandi frumvarpsins, segir að frumvarpið sé lagt fram með tilliti til þess að hreysti fólks hafi almennt aukist á síðustu árum og eðlilegt sé að lögin taki tillit til þess. 

Bendir hún einnig á að verði frumvarpið að lögum, færumst við nær því regluverki um gildistíma ökuskírteina sem þekkist á Norðurlöndunum. 

Núverandi lög um gildistíma ökuskírteina miðast við að einstaklingar sem hafa náð 60 ára aldri þurfi að endurnýja ökuskírteini sitt á tíu ára fresti. Einstaklingar 65 ára og eldri á fimm ára fresti, 70 ára á fjögurra ára fresti, 71 árs á þriggja ára fresti, 72 ára á tveggja ára fresti og einstaklingar 80 ára og eldri þurfa að endurnýja skírteinið ár hvert.

Myndi létta á heilsugæslunni

Verði frumvarpið samþykkt munu eldri ökumenn þurfa að endurnýja skírteini sín mun sjaldnar en núverandi lög gera ráð fyrir: Einstaklingar sem hafa náð 60 ára aldri myndu þurfa að endurnýja skírteinið á 10 ára fresti, 80 ára á fimm ára fresti og einstaklingar 90 ára og eldri á tveggja ára fresti. 

Segir Nanna að með þessu gætu miklir fjármunir sparast hjá hinu opinbera auk þess sem að létt verði á heilsugæslum landsins þar sem eldri ökumenn þurfa að fara í læknisskoðun og afla vottorðs hjá heimilislækni til að fá ökuskírteini sín endurnýjuð. 

„Þetta auðvitað léttir á heilsugæslunni þar sem mjög margir þurfa þessi vottorð og mæta þá til læknis,“ segir Nanna.

„Verðum líka að gera fólk ábyrgt“

Hvað segir þú þá við gagnrýni þess efnis að ef það eru ekki jafn örar skoðanir hjá eldri ökumönnum sé líklegra að einstaklingar sem eru ekki hæfir til aksturs séu úti að keyra og geti þar af leiðandi skapað hættu í umferðinni?

„Já, þetta er auðvitað gagnrýnin og eitthvað sem ég hugsaði um þegar ég fór að gera þetta frumvarp. En rökin gegn þessu eru fyrst og fremst þau að þegar þessi lög voru sett voru aðstæður allt aðrar,“ segir Nanna og vísar til þess að mikil þróun hafi orðið í heilbrigðisvísindum hér á landi síðustu ár. 

„Áherslan á að vera á fræðsluna og fólk á að geta sýnt ábyrgð sjálft, að vera ekki að keyra ef fólk finnur hjá sjálfu sér að það er ekki allt í lagi. Við verðum líka að gera fólk ábyrgt.“

Spurð hvort hún hafi hugmynd um hversu miklar fjárhæðir myndu sparast hjá hinu opinbera með breyttum lögum segist Nanna ekki vera með nákvæma krónutölu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert