„Ég hef verið með björgunar- og leitarhunda í fjölmörg ár, þetta er þriðji hundurinn sem ég þjálfa í snjóflóðaleit og til leitar- og björgunarstarfa á landi,“ segir Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, prófessor og deildarforseti við Háskólann á Bifröst í samtali við mbl.is., en hún er jafnframt björgunarsveitarkona til tveggja áratuga. Ólína var að standast próf í snjóflóðaleit með hann Vask sinn á vetrarnámskeiði BHSÍ sem staðið hefur síðustu daga á Mýrdalsjökli.
„Árið 2005 fór ég að þjálfa fyrsta hundinn í þessu skyni. Það var dalmatíuhundurinn Blíða, sem reyndist nú ekki mjög vel, svo ég fékk mér annan. Það var border-collie-hundur sem hét Skutull, og hann þjónaði sínu samfélagi sem útkallshundur í tólf ár. Skutull féll frá fyrir tveimur árum og þá fékk ég mér Vask,“ segir Ólína „hann var þá fjögurra mánaða hvolpur og þjálfunin hófst strax.“
Vaskur hefur nú staðist bæði C og B próf í snjóflóðaleit og er því orðinn hæfur til að fara á útkallslista hjá Landsbjörgu. Ólína stefnir á að hann taki B-próf í víðavangsleit innan tíðar. Að þjálfa upp fullfæran leitar- og björgunarhund, hvort sem er í snjóflóðaleit eða víðavangsleit, tekur þrjú ár og er gríðarleg vinna.
„Á næsta ári þarf hann að standast A-prófið og eftir það fer hann í úttekt á hverju ári,“ segir Ólína, sem sjálf vinnur með leitarhundinn og þarf að æfa með honum viðbrögð við öllum aðstæðum. „Við eigum ekkert leitartæki sem er skilvirkara í snjóflóðum en hundar. Fullþjálfaður leitarhundur leynir því ekkert þegar hann hefur fundið, hann gefur það mjög ákveðið til kynna, en ég þarf auðvitað að lesa hundinn allan tímann sem ég er að leita með honum. Annars stjórna hundarnir þessu nokkuð vel sjálfir þegar þeir eru farnir að vinna,“ segir Ólína frá, öllum hnútum kunnug.
Hundarnir fá verðlaun þegar þeir finna manneskjuna sem leitað er að, hvort sem er í snjóflóði eða á víðavangi. Það segir Ólína mjög mikilvæg skilaboð til dýranna, þau þurfa að finna að fundur þeirra hefur ekki aðeins í för með sér aðgerðir björgunarfólks heldur fylgja líka laun og umbun. „Verðlaunin sem Vaskur fær er leikur með gulan tennisbolta, það er nú allt og sumt sem hann fær í sinn hlut, en hann er fullkomlega sáttur við það“.
„Þegar hann er í vinnunni er hann í ákveðnum ham, en utan vinnu er hann bara venjulegur heimilishundur sem ég á. Milli þessara verkefna er hann yndislegt heimilisdýr,“ segir Ólína af Vaski sem í dag stóðst strembið snjóflóðaleitarpróf.