Skjálftavirkni hefur aukist við Sundhnúkagígaröðina frá miðnætti. Síðustu 30 daga hefur virknin einungis verið meiri einn dag.
Að sögn Bjarka Friis, náttúruvásérfræðings á Veðurstofu Íslands, hafa um 20 skjálftar mælst frá miðnætti. Því er um aukningu að ræða miðað við síðustu daga.
„En það er ekkert sem bendir til að eitthvað sé að fara af stað,“ segir hann og nefnir sér til rökstuðnings GPS-gögn og breytingar á þrýstingi borholna Svartsengis.
Skjálftarnir hafa flestir verið minni en 1 að stærð og mælst á 2-4 km dýpt. Sá stærsti mældist 1,1 að stærð.
Bjarki segir virknina hafa komið í lotum en mesta virknin hefur verið á milli klukkan 8 og hálf 12. Síðan þá hefur virknin verið minni.
„Ef maður ber saman fjölda skjálfta til dæmis síðustu sjö daga þá er auðvitað aukning í skjálftavirkni,“ segir hann og nefnir að skjálftar á svæðinu hafi verið í kringum 5 til 10 á dag.
Bjarki segir að síðustu 30 daga hafi einungis einn dag verið fleiri skjálftar það sem af er degi. Það var 11. mars og eftir það datt virknin niður.
„Svo er þetta búið að aukast síðustu fjóra daga.“
Hann segir Veðurstofuna vera á tánum, líkt og alltaf, „en það er auðvitað svolítið óþægilegt þegar þú færð fleiri skjálfta“.
„Það er enn þá eitthvað í gangi þarna niðri. Svo lengi sem þetta mun halda áfram svona þá mun þetta koma upp einn daginn,“ segir Bjarki að lokum.