Tugir hrossabúa og mikið fjárfest

Ármót. Stórt og glæsilegt hrossabú í Rangárþingi ytra, rétt sunnan …
Ármót. Stórt og glæsilegt hrossabú í Rangárþingi ytra, rétt sunnan við Þverá. Tindfjöllin og hinn svipmikli Eyjafjallajökull eru hér í bakgrunni. mbl.is/Sigurður Bogi

Austur í Rangárþingi hefur verið fjárfest fyrir milljarða króna á undanförnum árum við jarðakaup og uppbyggingu hrossabúgarða, reiðhalla, tamningastöðva og annars slíks.

Sterk hefð frá gamalli tíð er fyrir hestamennsku í héraðinu, sem nú er orðin þar mikilvæg atvinnugrein. Hefðbundinn landbúnaður, svo sem mjólkurframleiðsla, er áfram víða stundaður á svæðinu en allt sem hrossunum viðvíkur er mjög vaxandi. Margar jarðir hafa verið seldar, í heild eða að hluta, fyrir hrossabúskap og slíkt hefur hækkað verð samkvæmt alþekktum lögmálum. Svo leiðir eitt af öðru.

Hestheimar. Eitt fjölmargra hrossabúa í Ásahreppi sem er vestast í …
Hestheimar. Eitt fjölmargra hrossabúa í Ásahreppi sem er vestast í Rangárþingi og liggur að austanverðri Þjórsá. Hesthús og stór reiðskemma og gisting í smáhýsunum í brekkunni.

Rýmkað regluverk kom málum á hreyfingu

Regluverk um jarðasölu varð rýmkað nærri aldamótum og segja má að það hafi komið málum á hreyfingu. Á síðustu tuttugu árum eða svo hefur fjöldi jarða þarna í sveitunum skipt um eigendur, sem þá láta til sín taka. Farið hefur verið í uppbyggingu, stundum með atfylgi fjárfesta í öðrum atvinnugreinum, sem stundum eru sjálfir í stafni. Þetta hefur meðan á framkvæmdum stendur skapað mikla vinnu fyrir iðnaðarmenn og verktaka í héraði.

Nýjar byggingar hafa víða verið reistar en stundum er gömlum útihúsum, til dæmis fjósum, breytt til annarra nota en var. Því fylgir svo að við bæina er komið upp reiðvöllum, skeiðbrautum og slíku. Stundum eru líka byggð íbúðarhús og jafnvel gistiaðstaða. Ferðaþjónustan og hestamennskan fylgjast að. Á búgörðunum, sem eru vissulega eins ólíkir og þeir eru margir, eru oft tugir hesta á járnum; klárar sem notaðir eru til útreiða eða eru í tamningu eða ræktun. Og sumt eru einfaldlega keppnishross, enda eru margir af fremstu knöpum landsins Rangæingar.

Sumarliðabær. Hesthús og reiðskemma og fjær er íbúðarhús. Allt er …
Sumarliðabær. Hesthús og reiðskemma og fjær er íbúðarhús. Allt er byggt í stíl við einstakt umhverfið, þar sem bærinn stendur undir háu hamrabelti.

„Já, hér á svæðinu er þetta orðið atvinnuvegur sem hefur mjög mikið að segja. Í einhverjum skilningi gæti þetta talist stóriðja,“ segir Guðmundur Viðarsson, bóndi í Skálakoti undir Eyjafjöllum. Hann þekkir vel til þessara mála, svo sem af vettvangi sveitarstjórnar, auk þess sem hann er sjálfur hrossabóndi. Fyrir allmörgum árum reisti hann hesthús og reiðskemmu á jörð sinni og er þar með tamningar, ræktun og hestaferðir. Glæsilegt hótel var reist síðar. Þessa starfsemi segir Guðmundur hafa gengið prýðilega og rentað sig með ágætum. Stóðhesturinn Skýr frá Skálakoti hafi þá skilað sínu í folatolli. Slíkt með öðru hafi skapað tækifæri til að færa út kvíarnar. Einmitt nú er Guðmundur svo að að reisa á landareign sinni stöð þar sem tekið verður sæði úr stóðhestum sem sett verður í frystingu og síðar selt. Slík starfsemi er nýmæli á Íslandi.

Ítarlegri umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 20. mars. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert