„Við vitum í sjálfu sér ekki nægilega vel hvað er að gerast. Við erum bara að bregðast hratt við þar sem við fengum ábendingar um að það væri einhver öðruvísi lykt af vatninu á ákveðnum stöðum.“
Þetta segir Pétur Georg Markan, bæjarstjóri í Hveragerði, í samtali við mbl.is.
Hveragerðisbæ hafa borist ábendingar frá íbúum um breytingar á kalda vatninu á ákveðnum heimilum. Í umræðu á facebook-hóp Hvergerðinga er talað um furðulega og skrítna lykt og skrítið bragð af vatninu. Einhverjir tala um að ástand vatnsins hafi verið óeðlilegt um einnar viku skeið.
Neysluvatn er til athugunar samkvæmt tilkynningu á vef bæjarins.
Pétur segist ekki vita hversu mörg heimili búi við ástandið en að ábendingarnar sem borist hafi bæjaryfirvöldum séu ekki margar.
Hann segir að strax hafi verið kallað eftir því að heilbrigðiseftirlitið taki sýni og segist hann halda að það hafi átt að gerast í dag.
Í tilkynningu bæjarins segir meðal annars að bæjarstarfsmenn skoði ábendingar. Spurður hvort þeir hafi orðið einhvers áskynja segir Pétur ekki en bendir á að bærinn sé að bora uppi í dal.
„Við erum að taka tilraunaholu þar. Það gæti vel verið að einhver hreyfing hafi komist í kringum það þannig að þetta gæti mögulega verið eitthvað mjög tímabundið.“
Eitthvað sem myndi þá skolast út?
„Já, en það eru nokkrir möguleikar sem við erum að skoða. Fyrst og fremst þegar eitthvað svona kemur upp þá mælum við fyrst heilnæmi vatnsins.
Það sem að ég held að skipti öllu máli er að bregðast hratt við ábendingum, taka þær alvarlega og vera í samtali við íbúa strax og um leið og frekari fréttir berast að tilkynna um það. Við tökum þessu alvarlega,“ segir Pétur.