Rekstrarfélag Kvikmyndaskóla Íslands er farið í gjaldþrotameðferð.
Í tölvupósti rektors til starfsfólks skólans segir að um sé að ræða áfall en til gærdagsins hafi forsvarsmenn skólans trúað að til þessa kæmi ekki.
Mánuðum saman hafi staðið yfir viðræður milli skólans og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins sem og mennta- og barnamálaráðuneytisins um yfirfærslu málefna skólans úr síðarnefnda ráðuneytinu yfir í það fyrrnefnda.
Síðustu fréttir segja að úr háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu hafi verið lýst yfir ríkum vilja fyrir því að finna leið til yfirfærslunnar.
Segir í póstinum, sem Hlín Jóhannesdóttir rektor sendi, að unnið verði að því að halda starfseminni gangandi og að tryggja hagsmuni starfsfólks, kennara og nemenda.
Starfsfólk er kvatt til þess að gefa forsvarsmönnum tíma til að greiða úr málum en forsvarmenn lýsa um leið skilningi á þeirri erfiðu stöðu sem starfsfólk hefur verið sett í.
Hlín segir að í dag séu mikilvægir fundir milli skóla og ráðuneyta og að framhaldið muni ráðast á þeim fundum.
Væntir hún þess að geta tilkynnt undir lok dags hvaða línur hafi verið lagðar. Allt kapp sé lagt á að ljúka misserinu í það minnsta og að gæta að nemendum, kennurum og starfsfólki.
Eins og staðan er í dag segir hún að allt kapp verði lagt á að halda starfseminni gangandi.