Lét prenta peninga eftir innrás Rússa

Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri. mbl.is/Karítas

Seðlabankinn tók að prenta peninga eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að enn fari öll viðskipti á Íslandi fram í gegnum alþjóðleg kortafyrirtæki og þess vegna hafi verið algjörlega nauðsynlegt að bankinn ætti þessa seðla.

Aðspurður segir Ásgeir að ekki verði gefið upp hversu mikið hafi verið prentað eða hvað bankinn eigi mikið af pappírsseðlum.

„Þeir eru bara komnir í hús og það er búið að prenta þá en allir seðlabankar eru núna að prenta og sem betur fer vorum við bara á undan í röðinni.“

Vilja takmarka magn reiðufjár

Ásgeir segir peningaseðla þjóðhagslega mikilvæga ef tæknin bregst og ef ekki verður hægt að taka við kortum hérlendis í lengri eða skemmri tíma eða nálgast innistæður á bankareikningum með öðrum hætti.

Seðlabankinn hafi heimild vegna þjóðhagsvarúðar til þess að leggja að ákveðnum mikilvægum þjónustuveitendum að taka við reiðufé til að tryggja að fólk geti notað peningaseðla til að kaupa nauðsynjar.

Áhugavert verður að teljast, í því sambandi, að deilt hefur verið um hvort íslenskum aðilum sé skylt að taka við reiðufé yfirhöfuð og einhverjir söluaðilar látið reyna á að neita að taka við reiðufé.

Þá hafa stjórnvöld talað fyrir því að takmarka magn reiðufjár í umferð til að reyna að sporna gegn peningaþvætti. Það segir Ásgeir að einhverju leyti frumstæðar aðferðir í þeirri baráttu.

Ásgeir segir peningaseðla þjóðhagslega mikilvæga.
Ásgeir segir peningaseðla þjóðhagslega mikilvæga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frumstæð leið

„Fjármálaeftirlitið hefur verið að byggja upp sterkar varnir gagnvart peningaþvætti og við höfum verið að þrýsta á bankana varðandi ferla og fleira, þannig að við teljum okkur hafa náð miklum árangri í að berjast við peningaþvætti. Það að fara að takmarka peningaseðla er fremur frumstæð leið og önnur umræða,“ segir hann.

Yfirvöld í Skandinavíu hafi algjörlega snúið við á þessari vegferð og nú vilji þau tryggja reiðufé. Þau hafi áður viljað takmarka mjög notkun reiðufjár.

Reiðufé er þjóðhagslega mikilvægt og er skemmst að minnast stöðu reiðufjár í landinu í kringum bankahrunið 2008. Ásgeir kemur inn á þessi mál í bók sem hann skrifaði eftir hrunið.

Dagana í kringum fall bankanna varð í raun bankaáhlaup. Fólk hafði áhyggjur af því að bankarnir myndu falla og reikningar þeirra frjósa.

Segir Ásgeir að einmitt þetta hafi gerst í kringum fall Lehman Brothers í Bandaríkjunum. Fólk hafi þá byrjað að mæta í bankana og taka innistæður sínar út í reiðufé rétt eins og Íslendingar gerðu dagana í kringum hrun.

Seðlarnir við það að klárast

Segir hann það kannski ekki hafa haft bein áhrif á bankana en að allir seðlar hafi aftur á móti verið við það að klárast í fjárhirslum Seðlabankans. Spurður hvað bankinn hafi þá gert segir Ásgeir að ef sig misminni ekki hafi tvö þúsund króna seðillinn verið varabirgðirnar.

Það rímar við heimildir Morgunblaðsins sem herma að farga hafi átt bretti af seðlum en fyrir einskæra tilviljun hafi förgunin tafist. Þá hafi verið hægt að koma þeim seðlum í umferð.

Ásgeir er ekki tilbúinn að staðfesta þá sögu en segist geta staðfest þó með nokkurri sannfæringu að tvö þúsund króna seðillinn hafi komið til bjargar. „Það má alveg velta því fyrir sér hvað hefði gerst ef seðlarnir hefðu klárast.“

„Það má alveg velta því fyrir sér hvað hefði gerst …
„Það má alveg velta því fyrir sér hvað hefði gerst ef seðlarnir hefðu klárast.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan höfðaði til fólks

Geir Jón Þórisson, þáverandi yfirlögregluþjónn í Reykjavík, fór í viðtöl í fjölmiðlum á þessum tíma og lýsti áhyggjum af aukinni hættu á innbrotum. Í kjölfarið minnkaði álagið á úttekt reiðufjár úr bankaútibúum mikið og fólk fór jafnvel að leggja peningana aftur inn.

Ásgeir segir að á þessum tíma hafi bankarnir sjálfir haft áhyggjur af sínum viðskiptavinum, sem voru þá að koma út úr bönkunum með jafnvel háar fjárhæðir. Öryggisverðir hafi verið settir við innganga til að auka öryggi viðskiptavina bankanna.

Þar sem lokað hafði verið á gjaldeyrisviðskipti hafi dýrir munir einnig tekið að seljast grimmt; munir sem annaðhvort héldu verði eða urðu verðmætari með aldrinum eins og Rolex-úr og dýrt koníak. „Því bankainnistæður eru það sem fólk reiðir sig á fyrir öryggi. Ef þú óttast það að missa aðgengi að bankainnistæðunum – fólk var byrjað að kaupa ýmsa hluti og jafnvel byrjað að kaupa bíla og íbúðir til að finna skjól fyrir peningana sína.“

„Við höfum alveg velt þessu fyrir okkur

Segir seðlabankastjóri stöðuna öðruvísi nú, þegar áhyggjur eru helst af því að fólk missi samband við reikningana sína af tæknilegum ástæðum.

Í því sambandi nefnir hann að sænski seðlabankinn reyni nú að útbúa seðladreifingarmiðstöðvar til að tryggja öryggi í seðladreifingu þannig að fólk geti náð sér í seðla.

„Við höfum alveg velt þessu fyrir okkur líka. Mér finnst eðlilegt að í stað þess að hver banki sé með hraðbanka sameinist bankarnir um eitthvert innviðafélag sem er með þessa hraðbanka og þeir séu skipulega settir niður á ákveðna staði. Það er töluverð breyting á því hvernig er hugsað um seðla og mynt í umferð.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert