Fátt fór meira í taugarnar á Sigurbirni Bárðarsyni en þegar sænskir hestamenn gerðu lítið úr íslenska hestinum. Geltu jafnvel að honum til að líkja hestinum við hund. En Sigurbjörn stakk upp í þá.
Sigurbjörn Bárðarson, landsliðseinvaldur í hestaíþróttum, er gestur Dagmála í dag og ræðir þar um einstakan feril sinn á skeiðvellinum til hartnær sextíu ára. Hann er enn að keppa og mun gera það á meðan hann hefur trú á að geta unnið.
Samkvæmt skilgreiningu flokkast íslenski hesturinn sem pony, eða smáhestur. Hins vegar hefur hesturinn okkar stækkað mikið frá því sem áður var. „Hann er búinn að stækka um fleiri fleiri sentímetra. Það eru alveg straumhvörf í því,“ segir Sigurbjörn og telur helstu ástæðuna vera gott atlæti og uppeldi.
Ein af mörgum sögum sem Sigurbjörn rifjar upp í Dagmálaþættinum er þegar hann var við æfingar á Sólvangi í Svíþjóð. Þar var stór og mikil hestamiðstöð og mikill uppgangur í hestamennsku. Þarna var fólk víða að og aðstaða góð.
„Þegar þeir voru að þjálfa stóru hestana og riðu að manni þá geltu þeir á mann. Það var merki um að maður væri á hundi. Það var svona lítilsvirðing. Og djöfull fór það í pirrurnar á manni maður. Það kom Stjáni blái upp í manni,“ viðurkennir Sigurbjörn og reiðir krepptan hnefann til lofts, hlæjandi. „Maður var svo stoltur af sínum hesti.“
Þetta endaði með því að Sigurbjörn bauð þeim í kapphlaup. Sá íslenski á móti stóru „thoroughbread“ evrópsku kappreiðahestunum. Sigurbjörn var einmitt með nokkra íslenska hesta á staðnum og þar af einn öskufljótan sem hafði unnið til verðlauna hér heima. Svíarnir létu til leiðast og buðu honum að velja vegalengdina. „Ég valdi vegalengdina tvö hundruð metrar, tvö hundruð og fimmtíu metrar. Ég vandi hann við startboxið og ég var á undan. Svo heyrði ég þegar ég var kominn tvö hundruð og tuttugu þrjátíu metra. Þá heyrði ég hvininn í honum að koma og þá fór ég bara á bremsuna og stoppaði. Því þá var ég kominn í endamark. Þarna náði maður aðeins að setja upp í þá. Þeir geltu ekki á mig lengur eftir það,“ segir Sigurbjörn og greinilega skemmt þegar hann rifjar upp þessa sögu.
Nú hefur verið gerð heimildarmynd um Sigurbjörn þar sem farið er yfir ferilinn og hans litríka lífshlaup. Myndin heitir því viðeigandi nafni Sigurvilji. Myndin er sýnd meðal annars í Laugarásbíó og Selfossbíó.
Viðtalið við Sigurbjörn í Dagmálum geta áskrifendur Morgunblaðsins nálgast með því að smella hér fyrir neðan.