Manni kastað fram af svölum

Manni var kastað fram af svölum í umdæmi lögreglunnar á …
Manni var kastað fram af svölum í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Manni var kastað fram af svölum á Norðurlandi eystra fyrr í mánuðinum. Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá þessu í færslu á samfélagsmiðlum en segir ekkert frekar frá málinu.

Í færslunni segir lögreglan að ofbeldishegðun í samfélaginu hafi aukist töluvert undanfarin misseri og kveðst hún hafa miklar áhyggjur af því. Í framhaldinu segir hún frá nokkrum verkefnum lögreglunnar í síðustu vikur. 

„Í öðru máli var ekið á mann af ásetningi þar sem hann var gangandi á göngustíg. Í allt öðru máli var ökumanni veitt eftirför og við fyrirhugaða handtöku ók sakborningur fyrirvaralaust á lögreglubíl og voru tveir lögreglumenn í mikilli hættu sem stóðu við bílinn. Á föstudag ógnaði maður lögreglumanni með hnífi við handtöku í miklu návígi svo ekki mátti muna miklu að illa færi. Lögregla hefur haldlagt mikið af fíkniefnum undanfarið og rannsóknir eru í gangi er lúta að skipulagðri brotastarfsemi. Þá eru ótalin heimilisofbeldismál, líkamsárásir og kynferðisbrot sem eru því miður veruleiki,“ segir lögreglan á Norðurlandi eystra í færslu sinni. 

Þá segir enn fremur að aðgerðir og verkefni lögreglunnar muni áfram taka mið af vinnu í forvörnum og að lögregla muni beita sér gegn hvers kyns vopnaburði með það að leiðarljósi að tryggja öryggi lögreglumanna og almennings. 

Bendir lögreglan á að vopnaburður á almannafæri sé bannaður og gildir þá engu hvort vopn sé sýnilegt eða borið innanklæða. Viðurlög við fyrsta broti er að lágmarki 150.000 kr. sekt og færist brotið á sakaskrá.

 Fréttin hefur verið uppfærð: 

Í upprunalegri frétt stóð að manninum hefði verið kastað fram af svölum um helgina en hið rétta er að atvikið átti sér stað fyrir þremur helgum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert