Þorgerður: „Ákvörðunin var algerlega hennar“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, ræddu …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, ræddu afsögn mennta- og barnamálaráðherra á Alþingi í dag. Samsett mynd/mbl.is/Eyþór

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir að það hafi alfarið verið ákvörðun Ásthildar Lóu Þórsdóttur að segja af sér ráðherraembætti fyrir helgi. Hún hafi axlað ábyrgð og staðið sterkar á eftir.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag þar sem Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, spurði Þorgerði út í aðkomu hennar varðandi afsögn Ásthildar Lóu.

Var settur þrýstingur á Ásthildi Lóu?

„Mig langar til að spyrja hæstvirtan ráðherra, biðja um stutta útskýringu á því með hvaða hætti þessi ákvörðun var tekin hvað Viðreisn varðar. Var ráðgjafaráðið, sem ályktaði títt árið 2017, kallað til skrafs og ráðagerða eða var þetta leyst að fullu innan hóps valkyrjanna, sem kalla sig svo? Og mig langar til að spyrja hæstvirtan utanríkisráðherra hvort ráðherrann setti þrýsting á fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra um að segja af sér embætti,“ spurði hann. 

Þorgerður svaraði og sagði að ákvörðun Ásthildar Lóu hefði algjörlega hennar.

Axlar ábyrgð og stendur sterkari eftir

„Að sjálfsögðu var farið yfir það á þessum fundi, á fimmtudaginn var farið yfir málið og hún gerði grein fyrir atburðarásinni. Ákvörðunin er síðan hennar. Hún axlar strax ábyrgð og ég skynja að það er greinilega erfitt fyrir suma flokka að átta sig á því að hún er að setja stærri hagsmuni framar, þ.e. bæði ríkisstjórnarinnar en ekki síður málaflokksins sem hæstvirtur fyrrverandi ráðherra hefur brunnið mjög fyrir. Þannig að í stað þess að láta þetta mál fara inn í þann mikilvæga málaflokk sem mennta- og barnamálin eru þá axlar hún ábyrgð og stendur að mínu mati sterkari eftir,“ sagði Þorgerður Katrín. 

Er Ásthildur Lóa bundin trúnaði?

Bergþór vísaði til orða sem Ásthildur Lóa hefði látið falla um að hún mæti þá niðurstöðu sem varð í málinu sem ósanngjarna.

„Mig langar bara að spyrja hæstvirtan utanríkisráðherra aftur, af því að mér finnst það í raun ekki standast neina skynsemisskoðun að það sé staðan, hvort ráðherrarnir sem áttu þennan fund með fyrrverandi ráðherra hafi sett þrýsting á ráðherrann um að segja af sér eða að öðrum kosti færi — ja, það liggur ekki fyrir hvaða valkostir voru ræddir, þeir voru víst margir og ræddir ítarlega. En það skiptir máli. Sömuleiðis langar mig að spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hún líti svo á — nú vísaði hæstvirtur forsætisráðherra til trúnaðar um þennan fund — lítur hæstvirtur utanríkisráðherra svo á að fyrrverandi ráðherra, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, sé bundin trúnaði af þeim samtölum sem þarna áttu sér stað,“ spurði Bergþór.

Enginn þrýstingur

Þorgerður Katrín sagði að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna hefðu sest niður með Ásthildi Lóu til að fara yfir málið, sem væri bæði persónulegt og erfitt, í sameiningu.

„Ég held að það sjái það allir í dag, við öll í þessum þingsal og líka jafnvel mjög stór hluti af samfélaginu, að þetta mál er, að mínu mati, í dag þannig vaxið að það er meira sem hvílir á fjölskyldu Ásthildar Lóu að standa saman heldur en að við í stjórnmálunum reynum að gera okkur stærri á grundvelli þessa máls eins og sumir virðast vera að gera. Ákvörðunin var algerlega hennar. Það var hennar ákvörðun eftir að við höfðum átt samtal saman. Það var ekki þrýstingur, en þetta var samtal þar sem var farið yfir málið og við fengum innsýn í heildarmyndina,“ sagði Þorgerður Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert