Varasamasta hringtorg landsins

Um sextíu tjón voru skráð hjá Sjóvá á síðasta ári, …
Um sextíu tjón voru skráð hjá Sjóvá á síðasta ári, aðeins á þessu hringtorgi, að sögn Hrefnu Sigurjónsdóttur, verkefnastjóra forvarna hjá Sjóvá. Ljósmynd/Aðsend

Varasamasta hringtorg landsins er staðsett við Flatahraun í Hafnarfirði, að sögn sérfræðings Samgöngustofu. Orsökin er talin vera svokallaður auka armur úr hringtorginu sem liggur inn í þjónustugötuna við Bæjarhraun.

„Þessi staður er sérstaklega slæmur vegna þess að þetta lítur út eins og fjögurra arma hringtorg, Bæjarhraunið á þarna aðkomu svolítið óvænt,“ segir Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu.

Lang flestu umferðaróhöppin eigi sér stað í kringum þennan „bæjarhraunsarm“.

Þegar talað er um hættuleg hringtorg er átt við flest óhöpp. Að sögn Gunnars verða ekki sérstaklega mörg slys á fólki í árekstrum á hringtorgum. Hraðinn sé það lítill að ef það verða árekstrar þá er fólk almennt ekki að slasast.

„Ef við skoðum fjölda óhappa þá er þetta versta hringtorgið á landinu. Samkvæmt okkar skráningu voru þetta 163 óhöpp á fimm ára tímabili, en við gefum út slysaskýrslu á hverju ári og við greiningu á gatnamótum eru skoðuð fimm ár í einu.“

Segir umferðina vera samvinnuverkefni

„Þetta hringtorg er ofarlega hjá okkur á lista hvað varðar tjón, og hjá Samgöngustofu hvað varðar gatnamót með flestum árekstrum án meiðsla,“ segir Hrefna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri forvarna hjá Sjóvá.

Um sextíu tjón voru skráð hjá Sjóvá á síðasta ári, aðeins á þessu hringtorgi. Þessar tölur eru í stórum dráttum hægt að margfalda með þremur ef stóru tryggingarfélögin eru tekin saman. Miðað við það væri eitt óhapp annan hvern dag á umræddu hringtorgi.

„Samkvæmt gögnum Sjóvá verða um 30% þessara óhappa við það að ekið sé aftan á annað ökutæki. Önnur 30% verða þegar viðkomandi veitir innri hringnum ekki forgang eins og hann á að gera. Síðan eru um 10% óhappa vegna þess að fólk er ekki að virða biðskyldu,“ segir Hrefna.

Mark­mið Sjóvá hefur um nokkurn tíma verið að nýta um­hverf­is­skilti til að koma mik­il­væg­um skila­boðum til veg­far­enda á varasömum stöðum í um­ferðinni.

„Við höfum verið að biðla til fólks að fara varlega. Það gefi sér aðeins meiri tíma og hafi fulla athygli við askturinn, líti til beggja hliða og sýni tillitssemi. Umferðin er samvinnuverkefni,“ segir Hrefna.

Mikil umferð og einkennilega hannað hringtorg

Gríðarlega mikil umferð er um hringtorg landsins en að sögn Hrefnu voru þau hönnuð þegar annað landslag var í umferðinni. Hringtorgið við Flatahraun sé því ekki einsdæmi þó staðan sé verri þar en annars staðar.

„FH er við Flatahraun, þar sem margir iðkendur tómstundastarfs koma að allan daginn. Svo verður mjög mikil umferð vegna atvinnustarfsemi og ferða til og frá Keflavíkurflugvelli,“ segir Hrefna.

„Þó að mikil umferð hafi áhrif þá er þetta meðal annars að gerast af því að þetta er einkennilega hannað hringtorg. Þessi fimmti armur er að valda vandræðum, og ég er viss um að flestir væru til í að þetta yrði endurskoðað á einhvern hátt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert