Ætla að selja íslenskan prótínís í takmörkuðu magni

Strákarnir eru í frumkvöðlaáfanga í skólanum og ákváðu að gera …
Strákarnir eru í frumkvöðlaáfanga í skólanum og ákváðu að gera ís. Samsett mynd

„Við sprungum allir úr gleði eftir þessa smökkun. Þá áttuðum við okkur á því að þetta væri í raun og veru eitthvað sem gæti slegið í gegn.“

Þetta segir Sigurður Kári Harðarson, framleiðslustjóri fyrirtækis sem nefnist Ís. Styrkur, en fyrsta framleiðsla prótíníssins hefst í vikunni.

Ísinn sjálfur ber heitið STYRKUR og verður seldur í takmörkuðu magni í Vörumessu ungra frumkvöðla í Smáralind 4.-5. apríl.

„Ég fæ fiðring í magann bara við að tala um þetta við þig núna,“ segir Sigurður Kári.

Fyrirtækið er afsprengi Sigurður Kára, Daníels Arnar Örvarssonar framkvæmdastjóra, Erlings Andersen fjármálastjóra, Tristans Smára Þóroddssonar kynningarstjóra og Hafsteins Huga Hilmarssonar, hönnunar- og markaðsstjóra, en verkefnið er hluti af frumkvöðlafræðiáfanga þriðja árs nema á viðskiptabraut Verzlunarskóla Íslands.

View this post on Instagram

A post shared by @is.styrkur

Ákváðu strax að vinna með matvæli

„Allir nemendur á þriðja ári á viðskiptabraut fara í þennan kúrs, frumkvöðlafræði, og taka þátt í keppni ungra frumkvöðla og kynna vöru sína og selja hana á vörumessu í Smáralind. Vörumessan í ár verður 4.-5. apríl,“ segir Sigurður Kári.

„Þá eru hóparnir að fara að kynna vöruna sína, tala um hana og selja á básum í Smáralindinni.“

Hóparnir „stofna fyrirtæki“ án þess að skrá það á kennitölu en að sögn Sigurðar Kára er allt annað gert eins og um alvöru fyrirtæki sé að ræða.

„Við skipum okkur í stöður; framkvæmdastjóri, framleiðslustjóri, hönnunarstjóri o.s.frv. og gerum viðskiptaáætlun, fundargerðir og annað hefðbundið sem tengist því að stjórna svona sprotafyrirtæki.

Við þurfum að vera með fjárhagsáætlun, reikna út bjartsýnis- og svartsýnisspá og það allt saman. Það er svo algjörlega undir hverjum og einum hóp hvað hann gerir.“

Þeir félagar ákváðu strax í upphafi að vinna eitthvað tengt matvælaframleiðslu. Þeir fengu nokkrar hugmyndir í upphafi, t.d. að vinna með olíur, en það reyndist þeim erfitt að finna samstarfsaðila til að hjálpa við að taka þá hugmynd áfram.

Fóru í allt aðra átt

Á tímabili stefndi í að þeir myndu þróa drykk en það vantaði upp á tækjakost hjá samstarfsaðila til að gera það að veruleika.

„Þá fórum við í allt aðra átt og í ísinn. Ég hef tengingu við Kjörís í gegnum blakið hjá Hamri í Hveragerði og hef kynnst framkvæmdastjóranum Valdimar mjög vel. Svo tóku tveir okkar viðtal við markaðsstjóra Kjörís í stjórnunaráfanga í skólanum í fyrra.

Við ákváðum að senda póst á bæði markaðs- og vöruþróunarstjórann hjá Kjörís og þeir voru bara tilbúnir að hjálpa okkur að koma þessu af stað.“

Undirbúningur framleiðslu. Hópurinn á leið með prótín í Kjörís.
Undirbúningur framleiðslu. Hópurinn á leið með prótín í Kjörís. Ljósmynd/Aðsend

Gerði okkur enn hungraðri

Fyrirtækið hefur unnið að þróun prótíníssins frá upphafi árs og í síðasta mánuði fóru forsvarsmennirnir í smakk hjá Kjörís í Hveragerði.

Sigurður Kári segir ísinn koma verulega vel út og hafa farið fram úr öllum væntingum hópsins.

„Við erum mun sáttari en við gerðum ráð fyrir. Þetta kom mjög vel út og í smökkuninni var eitthvað sem kviknaði innra með okkur sem gerði okkur enn hungraðri.“

Kjörís styður gjarnan við frumkvöðla á ýmsum stigum atvinnulífsins. Fyrirtækið hefur verið minni framleiðendum innan handar og reglulega aðstoðað nema á hinum ýmsu stigum og fagnámi í sinni vinnu.

Fyrirtækið telur að það samtal sem eigi sér stað við ungt fólk í nýsköpunargeiranum sé mjög hollt fyrir rótgróin fyrirtæki og að bæði fyrirtækið og nemendur hagnist á því.

Frumkvöðlanámið sniðugt

Elías Þór Þorvarðarson, sölu- og markaðsstjóri hjá Kjörís, segir talsvert hafa verið um að nemendur í Verslunarskólanum hafi leitað til fyrirtækisins til að fá markaðslega innsýn inn í starf þess. Hann segir frumkvöðlanámið í skólanum sniðugt og nærri árlega sé hópur úr skólanum í einhvers konar samstarfi við Kjörís.

„Þau eiga í grunninn að búa til hugmynd og fylgja henni eftir en þeim skortir að sjálfsögðu talsverða þekkingu á framleiðslu, samsetningu og fleiru. Við höfum verið að veita hana.

Mjólkurfræðingurinn okkar, sem er vöruþróunarstjóri hér, hefur sest yfir þetta með þessum strákum og farið í gegnum uppbyggingu á ís, hvað sé framkvæmanlegt og hvað ekki.

Svo höfum við hleypt þeim að vélunum, þeir fengið að framleiða og við höfum verið að gera þetta síðustu árin. Það er meira að segja, því miður, það mikil eftirspurn að við höfum þurft að velja svolítið úr,“ segir Elías.

Svona munu umbúðirnar líta út.
Svona munu umbúðirnar líta út. Ljósmynd/Aðsend

12 grömm af prótíni í hverjum 100

Sigurður Kári segir að hópurinn hafi viljað reyna að gera eitthvað sem fólkið fíli þannig að það sé tilbúið að prófa eitthvað nýtt í staðinn fyrir að halda í sama mjúkísinn, eins og hann orðar það.

Hann segir mjólkurfræðinginn og vöruþróunarstjórann hjá Kjörís hafa verið mjög sáttan við útkomuna en menn hafi í upphafi talið að samsetningin á prótínís yrði mjög flókin.

„Svo var þetta bara ekkert mál og kom virkilega vel út,“ segir Sigurður Kári.

Elías Þór segir að Kjörís gagnist heilt yfir samtalið við unga fólkið. „Við lærum helling á því hverju þau sækjast eftir og af þeirra hugmyndum um hvað vanti inn á markaðinn, eins og hjá strákunum núna sem horfa á prótínríkar lausnir.“

Í 300 grömmum af STYRK eru 36 grömm af prótíni eða 12 grömm í hverjum 100 grömmum. Ísinn er laktósafrír en þess vegna er hann aðeins sætari en ella, að sögn Sigurðar Kára.

Í 100 grömmum af Styrk eru þá 15 grömm af sykri sem hann segir svolítið mikið en hann tekur fram að það hefði getað verið miklu meira ef ísinn er borinn saman við venjulegan ís.

Hópurinn sækir viðskiptaáætlun í prentun. Frá vinstri: Hafsteinn Hugi, Tristan …
Hópurinn sækir viðskiptaáætlun í prentun. Frá vinstri: Hafsteinn Hugi, Tristan Smári, Daníel Örn, Sigurður Kári og Erlingur Andersen. Ljósmynd/Aðsend

Kom mjög á óvart

Sigurður segir aðspurður þá félaga ekki hafa rætt framhaldið að neinu viti en ef allt gangi vel og þeir sjái fram á að hægt verði að gera gott úr framleiðslunni eftir vörumessuna þá geti vel verið að farið verði í nánara samstarf við Kjörís um allsherjarframleiðslu.

„Það er svolítið undir Kjörís komið líka af því að þeir eru með mjög mörg verkefni í gangi,“ segir Sigurður Kári en neitar því ekki að það kitli unga menn að vera mögulega búnir að detta niður á einhverja maskínu.

Elías segir aðspurður að honum finnist prótínísinn STYRKUR vera mjög spennandi vara til að fylgjast með og það sé ljóst að það vaki fyrir strákunum að fylgja henni áfram.

„Nú ef viðtökur verða með þeim hætti að við sjáum að þetta gæti verið þrælsniðugt erum við alveg til viðræðna um slíka hluti eins og ég hef sagt við strákana. Hún lofar góðu, það verður að segjast. Hún kom mér mjög á óvart. Hún er góð og þeir eru með konsept á bakvið hana.“

Sigurður Kári segir framhaldið undir hópnum komið. Þeir þurfi að halda áfram á þessari braut og stefna ennþá lengra. Þeir þurfi að sjá til þess að allt verði gert rétt.

„Það er svo geggjað hvernig lítið sprotafyrirtæki úr einhverjum menntaskóla getur allt í einu dottið niður á eitthvað sem gæti malað gull – hver veit?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert