Árásarmál á Vopnafirði: Beðið eftir niðurstöðu í sakhæfismati

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 19. október.
Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 19. október. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á föstudaginn rennur út gæsluvarðhaldsúrskurður yfir manni sem hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps og stórfelld brot í nánu sambandi en maðurinn réðst á fyrrverandi sambýliskonu og barnsmóður á Vopnafirði í október í fyrra.

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, segir að beðið sé eftir niðurstöðu úr sakhæfismati á manninum og í framhaldinu vonist hann til þess að hægt verði að rétta í málinu.

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 19. október en honum er gefið að sök að hafa meðal annars veist að konunni með rúllubaggateini og notað hann til að stinga hana í kviðinn, ýta við henni þar til hún féll til jarðar og síðan notað teininn til að þrengja að hálsi hennar. Þá var hann einnig með járnkarl í árásinni.

Hafdís Bára Óskarsdóttir, brotaþolinn, steig fram í Kastljósi RÚV á sínum tíma þar sem hún sagði manninn hafa ráðist á sig inni í skemmu fyrir utan heimili hennar.

„Hann teygir sig í járnkarlinn og ræðst á mig. Það fyrsta sem hann gerir er að reyna að stinga mig í kviðinn, tvisvar eða þrisvar sinnum. Hann nær að hrinda mér í gólfið og sest ofan á mig og setur járnkarlinn yfir hálsinn á mér og þrýstir bara,“ sagði Hafdís meðal annars í viðtalinu.

Hún segist hafa óttast um líf sitt og reynt að fá manninn til að hugsa um syni hennar en þann yngri eiga þau saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert