Brotist inn í skóla

Brotist var inn í skóla í Hlíðahverfi.
Brotist var inn í skóla í Hlíðahverfi. mbl.is/Sigurður Bogi

Brotist var inn í skóla í Hlíðahverfi í dag þar sem tölvu og myndvarpa var stolið. Þjófurinn hafði yfirgefið vettvang þegar lögreglu bar að garði en fannst skömmu síðar og komst þýfið til skila. 

Frá þessu er greint í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem segir frá verkefnum hennar frá klukkan 5 í morgun og til 17 í dag. Alls voru 104 mál bókuð í kerfi lögreglu á tímabilinu og gista tveir í fangaklefa. 

Lögregla var einnig kölluð út vegna innbrots og þjófnaðar á hóteli í miðbæ Reykjavíkur þar sem áfengi var stolið. Þjófarnir voru farnir af vettvangi er lögreglan kom á staðinn en í dagbókinni segir að lögregla hafi grun um hverjir hafi staðið að þjófnaðinum. 

Ók á 133 kílómetra hraða

Þá voru einnig unnin skemmdarverk í verslun í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Málið var afgreitt á vettvangi með skýrslutöku af geranda. 

Ökumaður var stöðvaður í Hafnafirði fyrir of hraðan akstur en sá keyrði á 133 kílómetra hraða á götu þar sem hámarkshraðinn er 90. Málið var afgreitt með sekt. 

Einn var handtekinn í Breiðholti vegna skemmdarverka. Var maðurinn í annarlegu ástandi og er hann vistaður í fangageymslu. 

Sinnti lögreglan einnig tveimur tilkynningum um umferðaróhöpp, annað þeirra var í Múlum og hitt í Kópavogi. Engin slys urðu á fólki og voru málin afgreidd á vettvangi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert