„Eitthvað sem gerðist árið 2023“

„Það var eitthvað sem gerðist árið 2023. Þá var mesta aukningin og allar tölur fóru upp í rjáfur hvað varðar ofbeldisbrot og hegningarlagabrot. Það var sviðsmynd sem við vorum að vonast til að myndi ganga til baka en hefur ekki gert það,“ segir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem tiltekin voru nokkur alvarleg ofbeldisbrot. Meðal annars var sagt frá því að manni hefði verið kastað fram af svölum og að reynt hefði verið að aka á annan vísvitandi. Í öðru máli keyrði maður á ökutæki lögreglunnar þar sem lögreglumenn stóðu við bílinn og upplifðu mikla hættu.

Aukin fíkniefnaneysla

„Umhverfið er orðið verra og erfiðara,“ segir Páley.

Hún segir fíkniefnaneyslu vera mikla og aukinn geðrænan vanda sem tengist þeirri neyslu áberandi.

„Þetta saman er orðinn jarðvegur fyrir ofbeldi og vopnaburðurinn er ekki að hjálpa okkur. Hann er orðinn tíður og það eru allir aldurshópar þar undir,“ segir Páley.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur talað á svipuðum nótum. Hvarvetna er ofbeldi að aukast. Spurð segir Páley að bein tengsl séu á milli landsvæðanna hvað aukna glæpatíðni varðar.

Heimilisofbeldið alvarlegra líka 

„Það er stígandi á ofbeldi í samfélaginu í heild. Það er mikið um hnífaárásir, ofbeldið er grófara þegar kemur að líkamsárásum, höfuðspörkum, bareflum og annað. Ef við skoðum Akureyri í samhengi við Reykjavík þá er þetta vinsæll áfangastaður og hlutfall ofbeldis eða annars helst í hendur við það sem það er í Reykjavík. Það er kannski minni tíðni í dreifðari byggðum en það sem er svo skrítið er það að heimilisofbeldið og aðfarirnar í slíkum málum eru líka að verða alvarlegri,“ segir Páley.

Ofbeldi - heimilisofbeldi - heimilisofbeldismál -
Ofbeldi - heimilisofbeldi - heimilisofbeldismál - Ljósmynd/Colourbox

Spurð hvort hægt sé að tengja þetta við Covid-tímabil sem hafði eingangrandi áhrif á marga þá treystir Páley sér ekki til þess að setja málin í slíkt samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert