Fangelsi smekkfull: 70 í gæsluvarðhaldi

Gæsluvarðhald, fangelsi, Hólmsheiði, fangelsismálastofnun, fangelsisdómur, afplánun.
Gæsluvarðhald, fangelsi, Hólmsheiði, fangelsismálastofnun, fangelsisdómur, afplánun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fangelsi landsins eru yfirfull. Helgast það ekki síst af þeim fjölda er situr í gæsluvarðhaldi af ólíkum ástæðum. Birgir Jónsson, settur forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir að um helgina hafi 67-70 verið í gæsluvarðhaldi. Þar af sitja um tíu í einangrun vegna lögreglurannsókna.

Sá hópur sem er í gæsluvarðhaldi samanstendur af föngum í lausagæslu sem alla jafna bíða áfrýjunar dómstólanna, fólki sem hefur verið synjað um landvistarleyfi og bíður brottvísunar og fólki í einangrun vegna rannsóknarhagsmuna.

56 gæsluvarðhaldspláss eru á Hólmsheiði en Litla-Hraun hefur einnig verið nýtt undir gæsluvarðhaldsfanga í lausagæslu.

Að auki eru um 100 manns í afplánun í fangelsunum en um 15 pláss á Litla-Hrauni eru ónýtt sem stendur vegna framkvæmda. 

Birgir Jónsson, settur forstjóri Fangelsismálastofnunar.
Birgir Jónsson, settur forstjóri Fangelsismálastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil áskorun 

„Við einfaldlega leysum þetta,“ segir Birgir spurður um það hvernig brugðist sé við svona ástandi.

Hvernig er það leyst?

„Við reynum við að stýra innflæði á fólki í fangelsin. Við setjum í raun upp ákveðna forgangsröðun. Núna eru óvenju margir sem sæta gæsluvarðhaldi og óvenju mörg stór mál í gangi,“ segir Birgir. Bætir hann því við að í undantekningartilfellum séu opnu fangelsin nýtt undir lausagæslu.

Hvað mynduð þið gera ef það kæmi upp stórt mál sem krefðist þess að margir yrðu settir í gæsluvarðhald samkvæmt úrskurði?

„Það yrði mikil áskorun. Það er alltaf áskorun fyrir kerfið þegar upp koma stór mál,“ segir Birgir.

Flest gæsluvarðhaldspláss eru á Hólmsheiði.
Flest gæsluvarðhaldspláss eru á Hólmsheiði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlé á afplánun kemur til álita 

Eru þá dæmi um að mönnum sé sleppt sem eru komnir langt með að sitja af sér sinn dóm? 

„Það er eitt úrræðið sem kemur til álita, að gera hlé á afplánun. Það er alls ekki heppilegt úrræði.  Við erum bæði með gæsluvarðhalds- og afplánunarfanga og eins og gefur að skilja er fjöldi gæsluvarðhaldsfanga breyta sem erfitt er að stýra. Það getur verið mikil áskorun því það eru bara ákveðið mörg pláss fyrir gæsluvarðhald,“ segir Birgir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert