„Ég vil bara óska Kjartani til hamingju með verðlaunin og verðlaunamyndina sem tekin var á Austurvelli og er fyrir margra hluta sakir athyglisverð.“
Þetta segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum í samtali við Morgunblaðið, þegar leitað var viðbragða hans við gagnrýni Kjartans „Golla“ Þorbjörnssonar ljósmyndara sem gagnrýndi takmarkað aðgengi fjölmiðla að hamfarasvæðum í Grindavík, að tilskipan lögreglunnar á Suðurnesjum.
Kjartan lét hörð orð falla um þá ákvörðun lögreglunnar sem hann kallaði fáránlega, í ávarpi sínu á árlegri sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands sl. laugardag, en þar tók hann við verðlaunum fyrir mynd ársins 2024.
„Mér finnst vera smá belgingur í honum. En hann er búinn að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og það er ekkert meira um það að segja, en ég kýs að tjá mig ekki efnislega um málið,“ segir Úlfar.
„Það sem ég er að vitna í er náttúrulega það sem er að gerast í febrúar 2024, þá er verið að hleypa hundruðum manns inn á svæðið til að tæma hús og þetta var náttúrulega alveg fáránleg ákvörðun,“ sagði Kjartan Þorbjörnsson, blaðaljósmyndari til áratuga og löngu greyptur í vitund þjóðarinnar sem Golli, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Kjartan vísar þarna til þess þegar aðgengi fjölmiðla að hamfaraslóðum i Grindavík var heft með tilskipun lögreglunnar á Suðurnesjum sem hann gagnrýndi Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóra harðlega fyrir í ávarpi sínu á árlegri sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands á laugardaginn.
„Það var ekki verið að halda okkur í burtu út af einhverjum öryggismálum þarna, það þarf bara að tala um þetta og þetta hefur oft gerst, Súðavík náttúrulega besta dæmið um það,“ segir ljósmyndarinn sem man tímana tvenna í starfsgrein sinni.
Hann kveður Súðavík þó allt annað mál. „Þetta er svo miklu verra af því að í Súðavík var hættuástandið miklu meira og óvissan miklu meiri, þá var engum hleypt að til að mynda,“ segir hann. „Úlfar er með allsherjarvald þarna á svæðinu, og það er bara ákveðið að halda okkur fyrir utan, hann er með vald umfram almannavarnir og vald umfram ríkislögreglustjóra og hann tekur það í sig að hann vilji ekki að við myndum meira. Hann lætur hafa eftir sér að það sé bara búið að mynda nóg. Það er bara ekki hans að taka þá ákvörðun.“ »
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag